Fréttatilkynning

 22. júní 2004

 

 

 

 

Össur hf. og  Íþróttasamband Fatlaðra

framlengja samstarfssamningi

 

 

 

Össur hf og Íþróttasamband Fatlaðra (ÍF) hafa framlengt samstarfssamningi sínum.  Samningurinn er til fjögurra ára. Um er að ræða fjárhagslegan styrk sem er ætlaður til styrktar ÍF m.a. við undirbúning og þátttöku á Ólympíumóti fatlaðra í Peking 2008. Samningurinn gildir frá 2005 til 2008.

 

Árangur fatlaðra íþróttamanna á undanförnum árum hefur vakið verðskuldaða athygli, íslenska íþróttafólkið hefur staðið sig afar  vel á Ólympíumótum sem öðrum stórmótum fatlaðra.  Þessi árangur er afrakstur markvissrar vinnu en Íþróttasambands Fatlaðra kappkostar að búa keppendur sína sem best undir þau verkefni sem framundan eru.

 

Íþróttasamband Fatlaðra mun fylgja sömu stefnu við undirbúning sinn fyrir Ólympíumótið sem haldið verður í Peking 2008 eins og fyrir undangengin Ólympíumót. Ljóst er að þar mun nýtt afreksfólk halda hróðri landsins og því nauðsyn á markvissum undirbúningi.  Langtímasamingur sem þessi, sem jafnframt er sá fyrsti sem Íþróttasamband Fatlaðra endurnýjar við samstarfsaðila sína, gerir sambandinu kleift að skapa afreksfólkinu bestu möguleg skilyrði til að hámarksárangur náist á þeim stórmótum sem framundan eru.

 

Össur hf. hefur markað sér þá stefnu að beina styrkveitingum sínum til fatlaðra og þeirra sem nota vörur fyrirtækisins.  Um árabil hefur Össur hf. starfað með notendum við þróun á nýjum vörum og í auknum mæli styrkir Össur fatlaða íþróttamenn um heim allan sem eru á meðal þeirra bestu í heiminum í dag.

 

Heimsókn alþjóða forseta Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra

Phil Craven, forseti Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) og Bob Price forseti Evrópudeildar hreyfingarinnar (EPC) voru viðstaddir undirritun samningsins en þeir voru í heimsókn hér á landi í tilefni 25 ára afmælis Íþróttasambands Fatlaðra.  Tilgangur heimsóknar þeirra miðaði meðal annars að því að kynna sér það starf sem unnið er hér á landi í þágu fatlaðra íþróttamanna. 

Við undirritun samningsins lýsti forseti Alþjóðaólympíureyfingar fatlaðra yfir ánægju sinni með það öfluga starf sem Íþróttasamband Fatlaðra og aðildarfélög þess stæðu fyrir sem ekki síst mætti þakka öflugum samstarfs- go stuðingsaðilum eins og Össur h/f.  Þá væri ekki síður athyglisverður sá mikli stuðningur fyrirtækisins við fatlaða afreksmenn víða um heim og sú kynning sem hann nú hefði fengið á starfsemi fyrirtækisins myndi leiða til frekara samstarfs IPC og Össurar h/f á alþjóðavettvangi.

 

Þeir Íslendingar sem munu taka þátt fyrir Íslands hönd á Ólympíumóti fatlaðra í Aþenu í september n.k. eru; Kristín Rós Hákonardóttir, Jón Oddur Halldórsson og Jóhann Rúnar Kristjánsson.

 

Á myndinni sjást Jón Sigurðsson, forstóri Össurar h/f og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF handsala endurnýjun samningsins en þeim á hægri hönd er Phil Craven forseti IPC og á vinstri hönd Bob Price formaður EPC.  Einnig eru með þeim á myndinni tveir af Ólympíumótsförum ÍF þau Kristín Rós Hákonardóttir og Jón Oddur Halldórsson en þau klæddust nýjum æfingafatnaði kostuðum af Össur h/f