Kristjana Jónsdóttir hefur starfað að íþróttamálum fatlaðra á Íslandi allt frá frá árinu 1976. Hún var einn af frumkvöðlum um sundþjálfun fatlaðra á Íslandi og hóf þjálfun í kjölfar námskeiðs á vegum ÍSÍ og Félags íslenskra sjúkraþjálfara árið 1974, þar sem kynnt var ný aðferð í sundþjálfun fatlaðra; Halliwick aðferðin
Hún var fyrsti sundþjálfari hjá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík (ÍFR) þar sem hópur fólks kom saman fyrst og fremst með það í huga að njóta heilsubótar og góðs félagsskapar. Uppbygging sundstarfsins undir stjórn Kristjönu þróaðist hratt og sífellt fleiri sóttu sundæfingar ÍFR. Fljótlega þurfti að skipta upp æfingahópum og mynda keppnishópa og þörf varð á fleiri þjálfurum til félagsins.
Á fyrsta Íslandsmóti ÍF í sundi árið 1979 mætti stór hópur frá ÍFR og þar var tekið fyrsta skrefið að sundkeppni á vegum félagsins. Sundfólk frá ÍFR hefur síðan þá unnið glæsta sigra innanlands sem erlendis og vakið þjóðarathygli fyrir afrek sín.
Kristjana sat í stjórn ÍFR frá árinu 1996 - 2003 og hefur alla tíð verið sérlega áhugasöm um íþróttastarf fatlaðra. Með starfi sínu hefur hún lagt ómetanlegt lóð á vogarskálarnar í þágu fatlaðs íþróttafólks. Sem frumkvöðull í sundþjálfun fatlaðra, hefur hún átt stóran þátt í byggja upp glæsilega sögu íslensks fatlaðs afreksfólks á sviði sundíþróttarinnar.
Stjórn Íþróttasambands Fatlaðra samþykkti einróma að Kristjana Jónsdóttir, skyldi hljóta Guðrúnarbikarinn 2003. Það er stjórn ÍF mikill heiður að fá að afhenda henni þennan bikar um leið og henni eru þökkuð ómetanleg störf í þágu fatlaðs íþróttafólks
Guðrúnarbikarinn er gefinn af Össuri Aðalsteinssyni, félaga í Kiwanisklúbbnum ESJU. Handhafi hans skal valinn ár hvert af stjórn Íþróttasambands Fatlaðra. Bikarinn skal afhendast árlega við það tilefni sem stjórn ÍF ákveður og verður því farandbikar, þar sem á verður áletrað nafn handhafa. Bikarinn skal afhendast konu þeirri sem hefur starfað sérlega vel á liðnu ári í þágu fatlaðs íþróttafólks. Bikarinn má afhenda fyrir störf að þjálfun, félagsstörfum eða öðrum þeim verkefnum sem talin eru hafa stuðlað að bættum hag fatlaðs íþróttafólks á árinu. Bikarinn skal afhendast árlega í 10 ár en eftir það skal hann varðveitast hjá Íþróttasambandi Fatlaðra. |