Alþjóðaleikar Special Olympics 2003

 

Hópurinn kom heim 30. júní og er óhætt að fullyrða að þessi ferð hafi verið hreint ævintýri fyrir þá sem þátt tóku, jafnt keppendur, þjálfara sem aðstandendur.

 

Ný sýn á Norður Írland -       Vinabær Íslands var áður talið hættusvæði

 

Borgin Newry á Norður Írlandi var valin til að gegna hlutverki vinabæjar Íslands en

þátttakendur búa í “vinabæ” nokkra daga fyrir leikana.  Þetta verkefni var fyrst sett á fót í tengslum við alþjóðaleikana 1995 og hefur verið sérlega árangursríkt.

 

Í apríl 2002, komu fulltrúarNewry til Íslands, til að kynna sér land og þjóð og til að hitta fulltrúa Special Olympics á Íslandi.  Allt frá þeim tíma hefur verið unnið markvisst að komu íslenska hópsins undir stjórn Paddy Duffy, formanns undirbúningsnefndar í Newry.  Borgarstjórnin hefur verið einhuga í stuðningi við þetta verkefni og fulltrúar ólíkra stjórnmálaafla, hafa unnið saman að þeim verkefnum sem tengdust komu íslenska hópsins.  Fólk úr öllum starfsstéttum, gaf kost á sér til sjálfboðaliðastarfa og skólar á svæðinu hafa undanfarin vetur lagt mikla áherslu á kynningu á Íslandi og verkefni tengd Íslandi og íslenskri þjóð.

Íslenski hópurinn naut ólýsanlegrar gestrisni í Newry allt frá fyrsta degi en hópurinn dvaldi þar frá 16. – 20. júní.  Á þjóðhátíðardegi Íslands 17. júní var boðið til mikillar hátíðar, þar sem unglingahljómsveit bæjarins lék m.a. íslensk lög og íslenski fáninn var í öndvegi.   Bæjarblöðin voru uppfull af fréttum um heimsókn íslenska hópsins og ágrip af íslenskri orðabók var birt í blöðunum.

Bæjarbúar fjölmenntu á opnunar og lokahátíð leikanna með íslenska fánann og mættu á keppnisstaði Íslendingana, á meðan á leikunum stóð.

Borgarstjórnin í Newry afhenti íslenska hópnum gjöf sem staðfesti hve mikils bæjarbúar meta þau samskipti sem komin eru á, milli Íslands og NEWRY.

 

Frá árinu 1995 hefur átt sér stað mikil uppbygging á Norður Írlandi

Frá árinu 1995 hefur staðið yfir mikil uppbygging í Newry en borgin og héraðið í kring var áður talið eitt varasamasta svæði Norður Írlands, fyrir utan Belfast.

Fyrir Íslendinga sem hafa alist upp við neikvæðan fréttaflutning frá Norður Írlandi

var það lífsreynsla að fá tækifæri til að kynnast þeirri hlið mannlífsins sem þarna blasti við, þar sem gestristni og góðmennska var allsráðandi, hvar sem komið var.

Ferðamannaiðnaður er skammt á veg komin á þessu svæði en þeir Íslendingar sem þarna voru, eru í dag allir staðráðnir í að heimsækja þennan stað aftur og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.    Frá Dublin er aðeins um klst. akstur til Newry og vonandi munu Íslendingar í auknum mæli líta til þessa svæðis þegar skipulagðar verða verslunar eða golfferðir.

 

Til að ítreka gildi leikanna fyrir Írland allt, þá voru lögreglumenn frá Norður Írlandi þátttakendur í opnunarhátíð leikanna, en slíkt samstarf hefði áður ekki talist mögulegt.

 

“ Það spurðist út á leikunum að keppendur frá fátækum þjóðum hefðu fengið alfatnað og ýmsar gjafir í vinabænum og hefðu þurft að fá leyfi fyrir aukaferðatösku á leiðinni heim”

 

 

 

Alþjóðaleikar Special Olympics 21. – 30. júní

 

30.000 sjálfboðaliðar              Færri komust að en vildu

 

Þrjátíu þúsund sjálfboðaliðar, störfuðu á leikunum og hver einasta fjölskylda í Dublin virtist á einhvern hátt tengjast þessum mikla viðburði.  Fólk stóð á gangstéttum og í dyragættum til að veifa til þátttakenda þegar keyrt var gegnum borgina á opnunarhátíðina í Croke Park.   Sjálfboðaliðar voru úr öllu starfstéttum og færri komust að en vildu.  Fangar í fangelsi í Dublin, lögðu sitt að mörkum og útbjuggu 75.000 fána sem notaðir voru á opnunarhátíðinni 21. júní.

Þjálfun sjálfboðaliða hafði staðið yfir í eitt ár og var greinilegt að mikil áhersla hafði verið lögð á markvissa þjálfun þeirra.  Allir virtust þekkja vel sitt hlutverk og vísuðu strax á aðra aðila, ef málefni tengdust ekki þeirra verksviði. 

Íþróttastjórnun leikanna var sérlega vel skipulögð og allir íslensku þjálfarararnir luku miklu lofsorði á skipulag á keppnisstöðum. 

Skólar á Írlandi unnu að sérverkefnum sem tengdust starfsemi Special Olympics og því að vera “öðruvísi”

 

Erfiðleikar við vegabréfsáritun, “SARS”  og pólitísk værindi

Flestar þjóðir sem skráðar voru til leiks mættu á staðinn en vandamál með vegabréfaáritanir og niðurstöðu vegna SARS, settu mark á heimsókn nokkurra þjóða.

Dæmi voru um að niðurskurður hafði orðið verulegur í þátttökufjölda þjóða, vegna erfiðs ástands í heimalandinu en aðrar þjóðir höfðu bætt verulega við þátttökufjölda.

Í fyrsta skipti á slíkum leikum þurftu stjórnendur að takast á við pólitísk áhrif, þegar lönd neituðu að spila við önnur lönd, af pólitískum ástæðum.   

 

Lögregluþjónar sjá um flutning á eldi leikanna

Lögregluþjónar um allan heim sáu um að flytja eld leikana frá Aþenu til Írlands

Eldur logar á öllum leikum Special Olympics og þann 4. júní var eldurinn kveiktur í Aþenu og hlaupið af stað með hann til Irlands, 15.000 km leið.  Stoppað var í 15 borgum þar sem borgarstjórar og borgarbúar sýndu samstöðu með hlaupurunum.

 

Fjölskylduprógramm

Í tengslum við leikana var boðið upp á sérstaka skráningu fyrir aðstandendur keppenda og íslenskir aðstandendur, nýttu sér þetta tilboð og mættu á svæðið, alls um 35 manns á öllum aldri.  Aðstandendur fengu að hitta keppendur í samráði við þjálfara en strangar reglur gilda um slík samskipti á leikunum.   Fyrir aðstandendur var þessi ferð mikil lífsreynsla og allir voru sammála um að þetta hefði verið mikið ævintýri.

 

“Healthy athlete prógramm”            Verkefni í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld

Eitt nýjasta verkefni á vegum Special Olympics er verkefni sem tekur fyrir heilbrigði og lífshætti keppenda og hafa sífellt fleiri lönd komið til samstarfs vegna þessa verkefnis.  Á leikunum voru augnlæknar, tannlæknar, sjúkraþjálfarar og fleiri aðilar með sérþjónustu, þar sem keppendur voru skoðaðir og leiðbeint á sviði heilbrigðis.

Fjölmargir keppendur fengu ókeypis gleraugu og og það var upplifun að fylgjast með því, þegar þau voru sett upp í fyrsta skipti og ný sýn blasti við einstaklingum, en margir höfðu ekki áður fengið tækifæri til að fá slíka þjónustu.

Ísland átti í fyrsta skipti fulltrúa í þessu verkefni, Magnús Kristinsson, tannlækni.

 

Íþróttakeppnin           Í fyrsta skipti sem Ísland er með í handbolta og golfi

Keppni á jafnréttisgrundvelli er megintilgangur leikanna og sjálfboðaliðar á keppnisstað sjá um að keppnisreglum sé framfylgt og að umgjörð keppninnar sé sem glæsilegust.  Undankeppni er háð þar sem keppendum er raðað í riðla eftir getu og strangar reglur gilda varðandi árangur í undarrásum og úrslitum.  Þannig geta keppendur verið dæmdir úr leik, telji keppnishaldarar að þeir hafi vísvitandi reynt t.d. að hlaupa eða synda, hægar í undanrásum en geta þeirra segir til um.  Miðað er við 15% reglu um bættan árangur, en mjög skiptar skoðanir eru um þessa reglu þó allir séu sammála um að þörf sé á einhverskonar reglugerð vegna þessa.

 

Íslendingarnir sýndu mikið keppnisskap og lögðu sig fram um að ná árangri í þeim 10 greinum sem Ísland tók þátt í.   

Það var spennandi að fylgjast með keppni í handbolta og golfi, en Ísland hefur aldrei áður sent keppendur í þessar tvær greinar.  Handboltaliðið sýndi mikil tilþrif þrátt fyrir að hafa aðeins æft í eitt ár.  Handboltaliðið var skipað félögum í íþróttafélaginu Ösp en þar voru skipulagðar æfingar, sérstaklega vegna ferðarinnar til Írlands.

Í golfi kepptu Íslendingar í flokki byrjenda og lengra komna, byrjendaflokkur keppti á Elm Green, þar sem settar voru upp fjölbreyttar þrautir en lengra komnir kepptu á glæsilegum golfvelli, Portmarnock.

 

Yngsti keppandinn í íslenska hópnum var Helgi Magnússon, sem keppti í fimleikum og sýndi þar fagmannlega takta.  Fimleikaþjálfarinn, Ásta Ísberg hefur náð frábærum árangri í fimleikaþjálfun þroskaheftra, en keppendur frá Íslandi voru mjög vel undirbúnir fyrir þær greinar sem þeir tóku þátt í og sýndu frábær tilþrif. 

 

Elsti keppandinn í hópnum, Héðinn Ólafsson, frá Ísafirði átti 60 ára afmæli í ferðinni og var slegið upp afmælisveislu honum til heiðurs, auk þess sem afmælissöngurinn hljómaði á keppnisstað og honum voru færðar ótal gjafir.

 

Heiðursgestir heiðruðu íslenska hópinn  með nærveru sinni

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson og eiginkona hans, Dorrit Moussojeff, ásamt Stefáni Lárusi Stefánssyni frá forsetaskrifstofu og Ólafi Sigurðssyni sendiráðinu í London, voru viðstödd opnunarhátíð leikana og fyrstu keppnisdagana.  Dagskrá forsetans tók mið af því að hann gæti hitt sem flesta keppendur úr íslenska hópnum og voru keppendur mjög ánægðir með  heimsókn þeirra hjóna á leikana, þar sem þau m.a. gengu inn á leikvanginn með íslenska hópnum á opnunarhátíðinni.  Forseti Íslands hitti m.a. annars Nelson Mandela á sérstökum fundi og einnig átti hann fund með Forseta Írlands eins og áður hefur komið fram í fjölmiðlum.

Forseti Íslands bauð öllum hópnum auk aðstandenda í hóf að Bessastöðum áður en haldið var af stað til Írlands 15. júní.

 

Tómast Ingi Olrich, menntamálaráðherra, var viðstaddur lokahátíð og síðustu daga leikana ásamt aðstoðarmanni sínum, Borgari Einarssyni og Liney Rut Halldórsdóttur, sviðsstjóra íþróttadeildar menntamálaráðuneytisins.    Hann afhenti m.a. verðlaun á leikunum og var viðstaddur úrslitakeppni hjá Íslendingum í golfi, boccia og borðtennis.   Menntamálaráðherra afhenti öllum Íslendingunum gjöf og afhenti einnig Paddy Duffy, formanni undirbúningsnefndar í Newry, sérstaka gjöf sem þakklætisvott fyrir frábærar mótttöku íslenska hópsins í Newry.  Hann afhenti einnig Mary Davis, framkvæmdastjóra leikanna sérstaka gjöf frá Íslandi, í hófi sem haldið var fyrir lokahátíðina.

 

Fyrir Ísland og íslensku þátttakendurna er sá stuðningur og áhugi sem Forsetahjónin og Menntamálaráðherra hafa sýnt starfsemi Special Olympics á Íslandi, ómetanlegur.

 

Framkvæmd leikanna tókst framúrskarandi vel og allir eru sammála um það að Írum hafi tekist það, sem margir töldu ómögulegt, að sýna fram á að Evrópuland gæti sett upp jafn glæsilega leika og fram hafa farið til þessa í Bandaríkjunum.

Írska þjóðin má vera stolt af þessu verkefni, þar sem náðist að skapa samstöðu og samvinnu á milli ólíkra stjórnmálaafla, trúarhópa og einstaklinga á öllu Írlandi og Norður Irlandi.