Mánudagur 11. nóvember 2013 11:54

Tímamótaviðburður hjá Special Olympics á Íslandi


Tvö ný verkefni voru innleidd í starf Special Olympics á Íslandi í gær, sunnudaginn 10. nóvember. Í fyrsta skipti var knattspyrnukeppnin alfarið byggð á reglum Special Olympics á Íslandi þar sem fatlaðir og ófatlaðra keppa saman í liðum. Í fyrsta skipti á Íslandi og á Norðurlöndum fór fram kyndilhlaup lögreglumanna, Logi Vonarinnar eða Flame of Hope sem er alþjóðlegt verkefni Special Olympics samtakanna og lögreglumanna um heim allan.
 
Special Olympics á Íslandi og Íþróttasamband fatlaðra fagnar þessum mikilvæga áfanga og þakkar öllum þeim sem aðstoðuðu við innleiðingu þessa verkefna.
 
Sjá nánar;
 
Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu og frjálsum íþróttum, fóru fram í Reykjaneshöllinni, Reykjanesbæ 10. nóvember.   Keppt var í knattspyrnu og frjálsum íþróttum. Í fyrsta skipti á Íslandsleikum var keppt alfarið skv. reglum Unified football þar sem lið eru skipuð fötluðum og ófötluðum leikmönnum.  4 fatlaðir og 3 ófatlaðir leikmenn kepptu og m.a. þeirra sem tóku þátt voru lögreglumenn og  framhaldsskólanemendur.   Alls kepptu 9 lið og voru keppendur frá íþróttafélaginu Nes, Suðurnesjum, Ösp Reykjavík, Þjóti Akranesi og Suðra Selfossi.Einnig var keppt í frjálsíþróttum, fyirhugað var að keppa í víðavangshlaupi og kúluvarpi en víðavangshlaup var fært  inn í Reykjaneshöllina vegna veðurs.  

Umsjónaraðili leikanna 2013 var íþróttafélagið Nes á Suðurnesjum.   Dómgæsla var í höndum dómara frá Knattspyrnudeild Keflavíkur og Guðni Kjartansson, íþróttakennari og knattspyrnuþjálfari sá um upphitun.   Special Olympics leikar eru fyrir folk með þroskahömlun og þar gilda engin lágmörk, allir geta verið með byrjendur sem lengra komnir.      www.specialolympics.org
 
Úrslit í knattspyrnu eru á heimasíðu KSÍ
http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=31824
http://www.ksi.is/mot/motalisti/urslit-stada/?MotNumer=31823

Úrslit í frjálsíþróttum verða á heimasíðu ÍF og setjum við inn hlekk hér þegar þau verða tilbúin.

Nýtt verkefni – LETR - Samstarf við lögregluna á Íslandi, Ísland fyrst Norðurlanda til að innleiða þetta verkefni
 Special Olympics á Íslandi tók nú fyrsta skipti þátt í alþjóðlegu verkefni Special Olympics sem byggir á samstarfi við lögreglumenn.  ( LETR - Law enforcement Torch Run) Kyndilhlaup lögreglumanna hefur verið sett upp í tengslum við Evrópu og alþjóðaleika Special Olympics og Ísland, fyrst Norðurlanda stóð nú fyrir slíku hlaupi.  Enska heitið er „Flame of Hope“ eða „Logi Vonarinnar“. Lögreglumenn frá Suðurnesjum og Reykjavík hófu hlaupið frá lögreglustöðinni í Reykjanesbæ þar semkyndillinn var tendraður og þeir hlupu síðan með hann um Reykjanesbæ og í Reykjaneshöllina þar sem lögreglustjórinn á Suðurnesjum mælti nokkur orð og sá um að tendra eld leikanna ásamt  Sigurði Guðmundssyni, keppanda í knattspyrnu.  Umsjónarmaður LETR  f.h.  Special Olympics á Íslandi er Guðmundur Sigurðsson, rannsóknarlögreglumaður en hann er einnig formaður íþróttafélagsins Ness.  Guðmundur þekkir vel til alþjóðaleika Special Olympics en hann var viðstaddur leikana í Aþenu 2011 þar sem sonur hans keppti í knattspyrnu.  Guðmundur  hefur verið valinn í hóp lögreglumanna frá Evrópulöndum sem munu hlaupa með kyndilinn fyrir  Evrópuleika Special Olympics árið 2014 í Belgíu.

Nánari upplýsingar um Law enforcement torch run



Til baka