Eygló Harðardóttir velferðarráðherra verður sérstakur gestur Íslands á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í Sochi í Rússlandi dagana 7.-16. mars næstkomandi. Sú hefð hefur skapast að menntamálaráðherra sæki Ólympíuleika en velferðarráðherra sæki Ólympíumót og þannig var Guðbjartur Hannesson t.d. gestur Íslands á Ólympíumóti fatlaðra í London sumarið 2012.
Eygló mun fylgjast með íslensku keppendunum þeim Ernu Friðriksdóttur og Jóhanni Þór Hólmgrímssyni sem bæði munu keppa í alpagreinum. Þá verður Eygló einnig viðstödd lokaathöfn leikanna.
Íþróttasambandi fatlaðra er það mikill heiður að ráðherra sjái sér fært um að leggja land undir fót um svo langan veg til þess að styðja við bakið á íslensku keppendunum.