Fimmtudagur 6. febrúar 2014 17:19

Þrumu stolið


Beinar þýðingar úr enskri tungu hafa oftar en ekki gefist illa en stuðst verður við eina slíka hér því þrumu hefur verið stolið (e. to steal a thunder). Þetta orðatiltæki vísar til þess að viðfangsefni sem mögulega átti að vera í brennidepli lendi í skugga annars. Í þessu tilfelli er það afar miður fyrir þann fámenna hóp sem mikið hefur á sig lagt við að ná á toppinn.
 
Umræðan um Vetrarólympíuleikana í Sochi í Rússlandi hefur verið einhliða, neikvæð og einhliða þar sem þjóðhöfðingjar hafa afboðað komu sína og gagnrýni á íslenska ráðamenn og þátttöku þeirra í verkefninu hefur einnig verið viðruð. Forsvarsmenn samkynhneigðra hafa einnig bent á ofbeldið sem samkynhneigðir í Rússlandi hafa mátt sæta og nýja lagasetningu í s.b.v. málefni samkynhneigðra sem litla hrifningu hefur vakið utan landamæra Rússlands.
 
Við sýnum baráttu samkynhneigðra ekkert annað en stuðning. Hér á Íslandi hafa málefni samkynhneigðra verið meira í deiglunni heldur en sjálft íslenska íþróttafólkið sem taka mun þátt fyrir hönd þjóðarinnar í mótinu, bæði á Ólympíuleikunum og Ólympíumóti fatlaðra sem hefst þar skömmu á eftir eins og venja er.
 
Í raun er vanvirðingin fyrir framlagi íþróttafólksins alger. Þátttökuréttur á viðlíka móti er afrek í sjálfu sér og þó Ísland verði seint sú þjóð sem vinnur flestar medalíur á svona stórmótum þá erum við engu að síður að tefla fram fólki í fremstu röð. Á meðan undirbúningi hefur staðið og nú þegar keppnin nálgast óðfluga eru það aðeins málefni samkynhneigðra sem komast að vegna Ólympíuleikanna og stöku fréttir vestrænna miðla sem lúta að því að gera lítið úr mótshöldurum.
 
Til að taka af öll tvímæli þá eru forráðamenn þjóðarinnar gestir á mótum sem þessu sem nú er að hefjast í Sochi. Í tilfelli Íþróttasambands fatlaðra verður Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra gestur sambandsins og sérlegur stuðningsmaður íþróttafólksins Ernu Friðriksdóttur og Jóhanns Þórs Hólmgrímssonar. ÍF fagnar því að Eygló hafi þekkst boðið. Gestir á borð við ráðamenn þjóðarinnar í viðlíka mótahaldi eru fagnaðarefni fyrir íþróttahreyfinguna til að sýna það og sanna að við erum þjóð á meðal þjóða þegar kemur að íþróttum. Þrátt fyrir þá fjárhagslegu staðreynd að um árabil hafi ólin verið það aftarlega í gati að sultaról mætti kalla.
 
Barátta samkynhneigðra fyrir sínum málstað hefur um árabil verið til algerrar fyrirmyndar og eftirbreytni. Hver einstaklingurinn er þar öðrum frambærilegri en mikið hefði okkur þótt það tilkomumikið ef forsvarsmenn þeirra hefðu séð sóma sinn í því að senda íslensku keppendunum baráttukveðjur í leiðinni. Það er vel hægt að heyja baráttu og um leið leggja annarri lið. Íslenska íþróttafólkið hefur nákvæmlega ekkert um það að segja hverjir sækja þá heim eða verði viðstaddir þegar að stóru stundinni þeirra kemur. Blóð, sviti og tár í mörg mörg ár eru að baki og þegar kominn er tími á að freista uppskerunnar er baklandið jafn áhugalaust og karlljón um hvolpauppeldið.
 
Færum íslenska skíðaíþróttafólkinu þrumuna sína á nýjan leik!
 
Áfram Ísland, öll sem eitt.

Jón Björn Ólafsson
Aðalfararstjóri ÍF á Ólympíumóti fatlaðra í Sochi 2014

Til baka