Miðvikudagur 12. mars 2014 11:56

Erna fyrst íslenskra kvenna til að ljúka keppni


Erna Friðriksdóttir varð í dag fyrst íslenskra kvenna til þess að ljúka keppni í alpagreinum á vetrarólympíumóti fatlaðra þegar hún hafnaði í níunda sæti í svigkeppni sitjandi kvenna í Sochi. Hin þýska Anna-Lena Forster hafði sigur á samanlögðum tíma 2:14.35 mín. Samanlagður tími Ernu var 3:10.30 mín. en hún datt í seinni ferðinni en fór ekki úr braut og lauk við ferðina. Alls ellefu keppendur hófu leik í morgun en aðeins níu komust í seinni umferðina.

Mikið hefur snjóað í nótt og í dag í Sochi og var brautin erfið. Erna kláraði báðar ferðir eins og áður greinir og hefur þar með náð betri árangri heldur en í Vancouver 2010 þar sem henni tókst ekki að ljúka keppni.

Erna sagði við heimasíðu ÍF eftir keppnina í morgun að hún væri bjartsýn fyrir keppnina í stórsviginu en hún fer fram þann 16. mars næstkomandi, á síðasta keppnisdegi Vetrarólympíumótsins. Jóhann Þór Hólmgrímsson keppir svo á morgun  í svigi sitjandi karla og verður það í fyrsta sinn sem hann tekur þátt og í fyrsta sinn sem Ísland á karlkynskeppanda í alpagreinum á Vetrarólympíumóti.

Úrslit - svig kvenna, sitjandi flokkur

Mynd/ Erna kemur í mark eftir seinni ferðina í svigi kvenna í dag.

Til baka