Miðvikudagur 26. mars 2014 15:46

Íþróttasamband fatlaðra hjálpaði mér að komast lengra


Ég heiti Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir og er í tómstunda- og félagsmálafræði í Háskóla Íslands.

Ég hóf nám í diplómanámi fyrir fólk með þroskahömlun árið 2009 og útskrifaðist  árið 2011. Með hörku fékk ég svo að halda áfram í tómstundafræði,
Ég er líklega fyrsta manneskjan í Evrópu, sem er með þroskahömlun,  til að fara í almennt háskólanám.

Árið 2011 greindist ég með þroskahömlun 20 árum of seint að mínu mati.  Margir spyrja sig:  Hvernig getur þroskahömluð kona verið í almennu háskólanámi? Það er bara þannig að ég gefst ekki upp og hef ekki látið neitt stoppað mig.  Hef meira að segja farið til Danmerkur  í lýðháskóla með aðstoðarmanneskju með mér.
 
Það er þannig að hlutirnir gerast hægar hjá fólki með þroskahömlun. Ég heyrði allt of oft,  þegar ég var yngri,  að ég ætti eftir að fara í Fjölbrautarskóla  á starfsbraut (námsbraut fyrir fatlaða) og síðan bara á vinnumarkaðinn ég gæti ekki farið í almennt nám því ég ætti alltof  erfitt með að læra. Ég kynni ekki ensku, stærðfræði og dönsku.
 
Af hverju ætli það hafi verið þannig,  kennararnir gáfu sér ekki tíma í að kenna mér því það tók aðeins lengri tíma fyrir mig að læra.  Ég reyndi eins og ég gat að vera jöfn hinum en það tókst ekki. Ég var í sveitaskóla út á landi frá 1. -  10. bekk.

Ég byrjaði að æfa íþróttir þegar ég var 6 ára og strax  þá ákvað ég að ég ætlaði að vera afrekskona í íþróttum,  annað hvort í frjálsum eða fótbolta.  Ég var alltaf á hlaupum  æfði í garðinum heima,  henti steinum,  lyfti þungu grjóti  og sparkaði í bolta daginn út og daginn inn . Ég fékk að taka þátt á mótum í héraðinu,  það var svolítið erfitt,  fékk næstum alltaf kvíðaverk í magann.
Eftir að ég lauk 10. bekk þá fór ég á starfsbraut í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi og ég fann mig alveg þar,  mér leið vel í skólanum og fékk fína kennara,  en félagslega datt ég svolítið niður. 
Ég kynntist fáum og  var frekar lokuð.

Einn góður félagi minn á starfsbrautinni kynnti fyrir mér íþróttafélaginu Suðra sem er íþróttafélag fatlaðra á Suðurlandi og ég fór á bocciaæfingu ásamt systrum mínum,  mér fannst þetta hrikalega gaman  og allir tóku vel á móti okkur. Um leið og við byrjuðum að æfa hjá Suðra,  þá fóru hlutirnir  að gerast,  ÍF (Íþróttasamband fatlaðra) tóku eftir mér, þau vissu að ég hafði mikinn áhuga á frjálsum íþróttum og hjálpuðu mér að komast í hendur á góðum frjálsíþróttaþjálfurum, þeim Siggu Önnu Guðjónsdóttur og Þuríði Ingvarsdóttur hjá Umf. Selfoss. Eftir að ég byrjaði að æfa með UMF Selfoss þá fór ég að fá meira sjálfstraust,  ég gat ekki verið þögul á þeim æfingum því það var mjög gaman að æfa með þeim.  Mér fór fram í öllum greinum og árið 2006 fór ég á fyrsta erlenda stórmótið mitt,  fór til Rómar að keppa í frjálsum íþróttum,  keppti í kúluvarpi og 100 metra hlaupi og kom heim með gull í kúlu og brons í hlaupinu,  en mótið heitir Special Olympics, það eru samtök sem voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni í Bandaríkjunum árið 1968. Markmið þeirra er að bjóða upp á íþróttatilboð fyrir þroskahamlaða og aðra þá sem eiga við námserfiðleika að stríða. Að komast á þetta mót efldi mig enn meira í verða betri.  Ég fór að sérhæfa mig alveg í kastgreinum eða kúluvarpi, kringlu og spjóti, mér  fannst þær langskemmtilegastar. Ég hef samt æft margar íþróttagreinar  t.d. boccia, frjálsar íþróttir, fótbolta, sund, blak og lyftingar.  

Árið 2009 flutti ég til Reykjavíkur og einangraðist ég þá svolítið því ég var ekki að æfa með neinu félagi og ég  vissi ekki hvar ég gæti æft. Ég  fór og talaði við nokkur frjálsíþróttalið en fékk engin svör frá neinum og  fór  því að æfa sund með íþróttafélaginu Ösp, sem er  eitt af tveimur félögum fyrir fatlaðra í Reykjavík,  ég æfði einnig  blak með Þrótti.

Árið 2012 varð mjög mikil breyting  hjá mér er ég fékk loksins flokkun hjá IPC (Alþjóða ólympíusambandi fatlaðra) en til þess að árangur sé metinn á Evrópu-eða Heimslista IPC, þá þarf að liggja fyrir staðfest flokkun sem gerð er af viðurkenndum aðilum innan IPC, ég náði lágmarki inn á Evrópumót sem haldið var í Hollandi og fór jafnframt í flokkun á því móti þar sem staðfest var að ég væri þroskahömluð. Þetta gerði það að verkum að ég fór að æfa á fullum krafti frjálsar íþróttir og æfði ég með úrvalshóp ÍF,  Kári Jónsson og Ásta Katrín Helgadóttir  eru landsliðsþjálfarar ÍF.  Ég fór þá að æfa kúluna enn meira,  stundum kastaði ég 2x á dag,  ég æfði með því hugarfari að ég væri að fara stórmót. Á þessu ári var þetta EM eða Evrópumót fatlaðra í Hollandi frjálsum íþróttum, ég ætlaði að fara á það mót sem ég gerði og keppti ég í kúluvarpi.  Þetta var hrikalega gaman,  eitt það skemmtilegasta móment í mínu lífi, enda bætti ég mig mjög mikið og komst í fyrsta skipti á móti yfir 9 metra, það hrundu mörg gleð tár því þarna var minn stærsti draumur frá því að ég var lítil að rætast,  að komast og keppa á stórmóti.  Lágmarkið  inn á þetta mót í kúluvarpi var 8,88 m,  ég náði því á MÍ hér heima.  En því miður er það þannig að það er enginn með alþjóðleg dómararéttindi hjá IPC hér á Íslandi, þannig að það dugði ekki til en vonandi á það eftir að breytast,  þá þurfum við ekki að fara eins oft út að keppa,  þá getum við náð lámörkum hér heima.

Ég keppi mest með ófötluðum,  það eru því miður of fá mót sem eru í boði hjá fötluðum. Ég væri ekki komin svona langt í mínum greinum ef ég fengi ekki að keppa með ófötluðum,  ég er að keppa á um 20 mótum á árinu.  Ég bætti mig um 3 metra í kringlukasti sl. sumar  en ég er líka búin að bæta mig mikið í kúlunni. Ég er búin að breyta kaststílnum í kúlunni,  núna er ég farin að nota snúningsstíl  sem er ekki ólíkur því sem notað er í kringlukasti.

Að fá meira sjálfstraust hefur hjálpað mér í íþróttum og í mínu daglega lífi,  ég er hætt að treysta á að aðrir geri hlutina fyrir mig. Það eru margir búnir að hjálpa mér að taka skrefið lengra,  nú er komið að mér að hjálpa öðrum að taka stærra skref.

Ég vil hvetja alla að til lifa sínu lífi, þið fáið bara eitt tækifæri og því ekki að stökkva á það sem er í boði fyrir ykkur þarna úti. 

Guðrún Hulda Sigurjónsdóttir  

Til baka