Mánudagur 31. mars 2014 11:18

Ætlar að reyna að ná heimsmetinu í sumar


Helgi Sveinsson er heimsmeistari fatlaðra í spjótkasti og hann ætlar sér Ólympíugull á Ólympíumóti fatlaðra í Ríó í Brasilíu árið 2016 og hef sett stefnuna á heimsmet á þessu ári. Guðjón Guðmundsson spjallaði við kappann í kvöldfréttum Stöðvar tvö í kvöld. www.visir.is greinir frá.

Helgi tryggði sér heimsmeistaratitilinn þegar hann kastaði spjótinu 50.98 metra á heimsmeistaramótinu í Lyon í Frakklandi síðasta sumar. Í Frakklandi stórbætti Helgi Íslandsmet sitt sem var 48 metrar.

En hvernig virkar gervifóturinn hjá Helga? „Þetta gefur manni alveg ótrúlega mikla orku til baka. Því meiri orka sem ég set í fótinn því meira svar fær ég til baka. Ég er svo heppinn eða óheppinn að vera með gervifótinn stemmumegin, sagði Helgi í viðtalinu við Gaupa.

Helgi var útnefndur íþróttamaður Reykjavíkur og íþróttamaður ársins úr röðum fatlaðra. Markmiðssetningin hjá Helga er skýr.

„Þetta er alveg brött brekka en það er búið að koma mér skemmtilega á óvart hversu fljótt ég er búinn að ná upp á toppinn. Við skulum bara halda áfram að vera þar. Mér hefur verið tjáð það að ég eigi aðeins inni og ég er náttúrulega það nýbyrjaður þannig að tæknin er ekki komin. Ég nota gömlu handboltaöxlina í þetta," segir Helgi og bætir við:

„Ég hef ekki verið feiminn að tjá mig um mín markmið. Það var langtímamarkmið eru Ólympíuleikarnir 2016 og sæti númer eitt. Ég er með það markmið að reyna að setja nýtt heimsmet og ætla að reyna að ná því í sumar," sagði Helgi en það er hægt að sjá allt innslagið með því að smella á myndbandið hér fyrir ofan.

Sjá einnig viðtalið sem tekið var í kvöldfréttum Stöðvar 2 sunnudaginn 30. mars

Til baka