Miðvikudagur 9. apríl 2014 14:31

Fjórir fulltrúar Íslands á Opna breska


Opna breska meistaramótið í sundi fer fram dagan 18.-21. apríl næstkomandi og hefur Íþróttasamband fatlaðra valið fjóra sundmenn til þátttöku í mótinu fyrir Íslands hönd. Jón Margeir Sverrisson, Fjölnir, Kolbrún Alda Stefánsdóttir Fjörður/SH, Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, og Aníta Ósk Hrafnsdóttir, Fjörður/Breiðablik verða fulltrúar Íslands á mótinu sem fram fer í Glasgow.

Sú nýbreytni hefur orðið á opna breska sundmótinu að nú fer það fram í Glasgow en síðustu ár hefur það farið fram í Sheffield. Ein af ástæðum þessarar breytingar er sú að heimsmeistaramót fatlaðra í sundi fer fram í sömu laug í Glasgow 2015.

Íslenskir sundmenn úr röðum fatlaðra munu svo nýta sumarið í undirbúning fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Hollandi í ágúst en það skýrist með sumrinu hvaða sundmenn muni öðlast þátttökurétt þar.

Mynd/ Thelma Björg Björnsdóttir sundkona frá ÍFR er einn fjögurra fulltrúa Íslands á opna breska meistaramótinu.

Til baka