Þriðjudagur 22. apríl 2014 16:19

Thelma í fantaformi í Glasgow


Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, var í fantaformi um páskahelgina þegar opna breska meistaramótið í sundi fór fram í Glasgow. Keppt var í sömu sundhöll og hýsa mun heimsmeistaramót fatlaðra í sundi sumarið 2015. Thelma Björg setti samtals átta ný Íslandsmet í flokki S6 og Jón Margeir Sverrisson setti eitt nýtt Íslandsmet í flokki S14. Kirstín Guðmundsdóttir annar tveggja landsliðsþjálfara Íslands í sundi var að vonum ánægð með árangurinn.
 
„Þau voru að standa sig rosalega vel,“ sagði Kristín en Ísland sendi fjóra keppendur á mótið. Þau Thelmu Björgu og Jón Margeir en einnig tóku Aníta Ósk Hrafnsdóttir og Kolbrún Alda Stefánsdóttir þátt.
 
„Jón var að glíma við smá pest en náði sér á strik undir lokin og var aðeins 0,05 sek. frá því að jafna Evrópumetið sitt í 200m skriðsundi sem hann setti á HM í Montréal síðastliðið sumar,“ sagði Kristín en Jón heldur nú yfir til Berlínar þar sem hann mun taka þátt í opna þýska meistaramótinu um komandi helgi.
 
„Aðstaðan hér var flott og framför að halda mótið hér í Glasgow frá því sem var í Sheffield. Aðstaðan er betri með tilliti til upphitunarlaugar og fleira,“ sagði Kristín en íslenski hópurinn er væntanlegur heim á eftir að frátöldum Jóni Margeiri eins og áður greinir.
 
Íslandsmetin sem féllu í Glasgow:
 
100m skriðsund

Jón Margeir Sverrisson, Fjölnir, S14 - 55,20 sek.
 
100m bringusund
Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, S6 - 2:03,17 mín.
 
50m bringusund
Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, S6 - 57,83 sek.
 
200m fjórsund
Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, S6 - 3.41,93 mín.
 
50m flugsund (hluti af 200 fjór hjá Thelmu)
Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, S6 - 49,81 sek. - Thelma tvíbætti svo nýja metið, fyrst 48,64 sek. og svo aftur í úrslitum 47,95 sek. þegar keppt var í 50m. flugsundi. Fyrsta Íslandsmetið í flugsundinu hjá Thelmu var s.s. ein grein af fjórum þegar Thelma keppti í 200m. fjórsundi.
 
200m skriðsund

Thlema Björg Björnsdóttir, ÍFR, S6 - 3:02.10 mín.
 
400m skriðsund
Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, S6 - 6.12.09 mín.
 
Mynd/ Sverrir Gíslason - Páskarnir voru metum settir hjá Thelmu þetta árið.

Til baka