Miðvikudagur 14. maí 2014 15:17
Föstudaginn 23. maí næstkomandi verður opnunarhátíð alþjóðlega skautamótsins Inclusive Skating í Skautahöllinni í Laugardal og hefst hún kl. 17:00. Allir velkomnir!
Helgina 23. – 25. maí verður haldið skautamót fyrir fatlaða á Íslandi, undir merkjum Inclusive Skating. Framkvæmdaaðilar eru skautadeild Aspar og Íþróttasamband fatlaðra í samvinnu við Special Olympics á Íslandi og Skautasamband Íslands.
Árið 2005 tóku keppendur frá Special Olympics á Íslandi í fyrsta skipti þátt í listhlaupi á skautum á alþjóðavettvangi. Leikar Special Olympics samtakanna eru aðeins fyrir iðkendur með þroskahömlun, en þar geta allir verið með byrjendur sem lengra komnir.
Ísland hefur tekið þátt í þróunarstarfi Inclusive Skating en starfið felst í að þróa reglur og mót fyrir fólk með mismunandi fötlun og stefnt er að því að skautagreinar verði í boði
á Ólympíumóti fatlaðra (Paralympics). Í forsvari Inclusive Skating er fólk sem býr yfir sérfræðiþekkingu á þessu sviði og það er heiður fyrir Ísland að eiga fulltrúa í þeim hópi.
Inclusive Skating stendur að mótum þar sem boðið er upp á keppni í mismunandi fötlunarflokkum og því hafa hér opnast ný tækifæri fyrir þá sem ekki geta keppt á leikum Special Olympics. Fyrsta mót Inclusive Skating var í Dumfries í Skotlandi árið 2012 og nú var leitað til Íslands um að standa að framkvæmd mótsins 2014.
Það er heiður fyrir Ísland að vera í hópi þjóða sem leiða alþjóðaverkefni Inclusive Skating. Markmið Inclusive Skating er að stuðla að því að skautaíþróttin verði öflug grein fyrir fatlaða um allan heim, verði ný íþróttagrein á vetrarólympíumótum fatlaðra og muni áfram verða til staðar auk þess að eflast á alþjóðavetrarleikum Special Olympics.
Frekari upplýsingar má finna á vefsíðu mótsins
www.inclusiveskating.is