Laugardagur 17. maí 2014 12:21

Arnar og Helgi með ný Íslandsmet í Sviss


Frjálsíþróttamennirnir Arnar Helgi Lárusson og Helgi Sveinsson eru þessa helgina báðir staddir í Sviss við keppni og í gær settu þeir báðir ný Íslandsmet. Arnar Helgi keppti þá í 200m hjólastólaakstri og kom í mark á nýju Íslandsmeti, 34,55 sek. sem gaf honum 628,968 stig og hafnaði hann í 44. sæti en mótið er gríðarlega sterkt og það sterkasta sem haldið hefur verið í hjólastólaakstrinum síðan HM í Lyon fór fram síðastliðið sumar.

Helgi hafði sigur í spjótkastkeppninni í öllum flokkum (stigakeppni) og hlaut 994 stig fyrir besta kastið sitt sem reyndist nýtt Íslandsmet en það var 51,83 metrar! Glæsilegt kast hjá Helga en á HM síðastliðið sumar kastaði Helgi 50,98 metra sem dugði honum til að verða heimsmeistari. Það kast var jafnframt heimsmeistaramótsmet í flokki Helga sem keppir í flokki F42 (flokkur aflimaðra).

Mynd/ Helgi Sveinsson bætti Íslandsmetið í spjótkasti í gær í flokki F42 um tæpan meter!

Til baka