Mánudagur 26. maí 2014 15:49

Inclusive Skating mótið tímamótaviðburður


23. – 25. maí var haldið skautamót í Skautahöllinni í Laugardal undir merkjum Inclusive Skating. Framkvæmdaaðilar voru Íþróttasamband fatlaðra og skautadeild Aspar í samvinnu við Inclusive Skating samtökin, Special Olympics á Íslandi og með stuðningi Skautasambands Íslands. Ísland hefur tekið virkan þátt þróunarstarfi Inclusive Skating sem felst í að aðlaga reglur og skipuleggja mót þar sem fólk með mismunandi fötlun keppir saman. Skautagreinar hafa verið í boði á vetrarleikum Special Olympics en þeir leikar eru aðeins fyrir fólk með þroskahömlun. Markmið er að skautagreinar verði einnig innleiddar á vetrarólympíumót fatlaðra (Paralympics).

Inclusive Skating stendur að mótum þar sem boðið er upp á keppni í mismunandi fötlunarflokkum og því hafa hér opnast ný tækifæri fyrir marga iðkendur.
 
Fyrsta mót Inclusive Skating var haldið í Dumfries í Skotlandi árið 2012 en leitað var til Íslands um að standa að framkvæmd mótsins 2014. Keppendur voru tuttugu og tveir og komu frá Bretlandi, Canada, Íslandi og Skotlandi. Keppt var fórum aldursflokkum og 5 styrkleikaflokkum.
 
Á föstudag var flokkun keppenda undir stjórn erlendra lækna en íslenskir læknar aðstoðuðu við flokkun og kynntust þessu nýja kerfi. Keppni fór fram á laugardag og sunnudag en í tengslum við mótið var einnig boðið upp á óvissuferð fyrir þjálfara og matarboð í heimahúsi fyrir erlenda keppendur.

Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhenti verðlaun í lok móts og gleðin var allsráðandi hjá keppendum þegar tekið var á móti verðlaunum.
 
Með þessu verkefni er Ísland að taka afstöðu með afgerandi hætti með þeirri hugmyndafræði sem Inclusive skating byggir á. Þetta er tímamótaviðburður þar sem innleiddar eru nýjar keppnisregur og flokkunarkerfi. Samstarf íslenskra bakhjarla mótsins vakti athygli en þar komu að íþróttafélagið Ösp, Íþróttasamband fatlaðra, Special Olympics á Íslandi og Skautasamband Íslands.
 
Framkvæmdaaðilar vilja koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem á einn eða annan hátt komu að undirbúning og framkvæmd mótsins.

Til baka