Miðvikudagur 18. júní 2014 12:58

René farinn af stað - Ofurmaðurinn

HLAUPIÐ KRINGUM ÍSLAND OG YFIR ÍSLAND TIL STUÐNINGS ÍF OG GRENSÁS

 

Ofurhlauparinn René Kujan mun hlaupa yfir Ísland til styrktar Íþróttasambandi fatlaðra og Endurhæfingarstöð Grensás.

Þetta “íslenska” verkefni hans hófst árið 2012 þegar hann hljóp aleinn kringum Ísland; 30 maraþon á 30 dögum. Árið 2013 hljóp hann þvert yfir Ísland frá norðri til suðurs. Í ár mun hann hlaupa frá austurlandi og enda á vestasta punkti landsins. René er mikill Íslandsvinur svo vægt til orða sé tekið.

 

Verkefni René hófst í raun fyrir mörgum árum síðan þegar hann lenti í alvarlegu bílslysi og var heppinn að sleppa lifandi úr því. Eftir að hafa fengið rétta meðhöndlun strax eftir slysið og síðan góða aðstoð og meðferð þá tókst honum að komast á fætur aftur. Eftir þessa erfiðu lífsreynslu ákvað René að hann yrði að gera eitthvað til að vekja athygli á þeim sem ekki eru eins heppnir og hann. Hann ákvað því að hann myndi hlaupa til að minna fólk á alla þá sem ekki eru eins heppin og við flest. Nú notar hann hlaupin, sína sögu og sambönd til að ná athygli fyrir þá sem þurfa endurhæfingu eða aðstoð.

 

Hann mun hefja ferðalgið 18. júní og klárar kringum 10.júlí. Hann hefur hlaupið frá Gerpi sem er austasti punktur landsins. Hann fer með bát í Sandvík og skokkar þaðan að Gerpi, austan megin, og hleypur síðan eftir slóðum yfir í Viðfjörð og þaðan til Eskifjarðar þar sem hann mun gista hjá Sævari á Mjóeyri sem aðstoðar við upphafið og reddar höfðinglegri gistingu. Eftir lok verkefnisins vestan megin við Látrabjörg þá mun René skokka Laugaveginn þann 12.júlí með íslenskum og erlendum hlaupurum.

 

Unnið verður kringum ferðalagið með Íþróttasamandi fatlaðra, Endurhæfingarstöð Grensás, nokkurra fyrirtækja og fjölmiðla. Símasöfnun verður í gangi sem rennur til Íþróttasambands fatlaðra og Endurhæfingarstöðvar Grensás.

 

Hægt er að hringja í eftirfalin símanúmer sem Vodafone hefur aflað endurgjaldslaust auk þess að gefa símanúmer, símtöl, gagnaflutning og annað til að auka gæði verkefnisins 3ja árið í röð:


9071501 – 1.000 kr.

9071502 – 2.000 kr.

9071505 – 5.000 kr.

Til baka