Föstudagur 22. ágúst 2014 08:40
Stuðningurinn úr stúkunni í Swansea var ekki af verri endanum í gær þegar Arnar Helgi Lárusson keppti í 200m hjólastólakappakstri á Evrópumeistaramóti fatlaðra í frjálsum. Gylfi Þór Sigurðsson landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður Swansea í ensku úrvalsdeildinni var mættur á völlinn til að styðja við bakið á íslensku sveitinni.
Gylfi fylgdist með Arnari koma í mark í fimmta sæti en eins og þegar hefur komið á daginn varð Arnar þriðji þar sem tveir aðrir keppendur voru dæmdir úr leik.
Gylfi vakti vitaskuld athygli hjá heimamönnum enda nýbúinn að afgreiða eitt stykki Manchester United fyrir sitt fólk í Swansea svo Gylfavísitalan hér ytra er í hæstu hæðum. Flott heimsókn hjá landsliðsmanninum og verður ekki annað sagt en að vel hafi farið á með íþróttafólkinu sem hvert á sínu sviði stendur í ströngu þessi dægrin.
Mynd/ Frá vinstri: Kári Jónsson landsliðsþjálfari, Matthildur Ylfa Þorsteinsdóttir, Gylfi Sigurðsson, Ásta Katrín Helgadóttir aðstoðarlandsliðsþjálfari og fremstur er Arnar Helgi Lárusson.