Miðvikudagur 27. ágúst 2014 13:47

Hljóp á nýju heimsmeti

Kim de Roy, setti nýtt óopinbert heimsmet í maraþonhlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu þann 23. ágúst. Kim hljóp maraþonhlaup á besta tíma í sögunni í flokki þeirra sem eru aflimaðir á öðrum fæti fyrir neðan hné. Hann hljóp á tímanum 2:57:06 og bætti met fyrri heimsmethafans Rick Ball frá Kanada um 41 sekúndu. Upplýsingar um fyrri heimsmethafa má finna hér: http://www.rickballruns.com/home.html
 
Kim er Belgi en giftur íslenskri konu og talar nær fullkomna íslensku. Hann gegnir framkvæmdastjórastöðu hjá Össuri á sviði sölu og markaðsmála á stoðtækjasviði í Bandaríkjunum. Kim er aflimaður og menntaður sem stoðtækjafræðingur og sjúkraþjálfari.

Að sögn Kim þá bjóst hann alls ekki við að bæta heimsmetið. "Síðan þegar út í hlaupið var komið þá var nær enginn vindur og hitastigið var alveg fullkomið og ég fann að þetta væri raunhæfur möguleiki. Gervifóturinn og hulsann virkuðu líka alveg eins og í sögu og ég var himinlifandi þegar ég kom í mark," segir Kim. Kim var liðtækur körfuboltamaður á sínum yngri árum en á ekki langan feril sem hlaupari. "Svo fann ég í vor að ég var aðeins búinn að bæta á mig nokkrum kílóum og ákvað að byrja að æfa með það fyrir augum að taka þátt í Reyjavíkurmaraþoninu. Þetta byrjaði því sem heilsuátak en endaði sem heimsmet," segir Kim kíminn.

Forstjóri Össurar, Jón Sigurðsson og starfsfólk Össurar sendi Kim stóran blómvönd með hamingjuóskum. Fyrirtækið státar nú af tveimur heimsmeisturum en Helgi Sveinsson spjótkastari starfar einnig hjá fyrirtækinu.

Hér er hægt að hlusta á viðtal sem tekið var við Kim í Morgunútvarpinu á Rás 2
http://www.ruv.is/ithrottir/bjost-ekki-vid-ad-setja-heimsmet

Frétt af www.ossur.is

Til baka