Mánudagur 8. september 2014 10:26

40 manna hópur heldur til Antwerpen í fyrramálið


Á morgun heldur 40 manna hópur af stað áleiðis til Antwerpen í Belgíu þar sem Evrópuleikar Special Olympics munu fara fram. Ísland sendir 29 íþróttamenn á mótið sem keppa munu í sex íþróttagreinum.

Íslendingar taka þátt í boccia, badminton, borðtennis, frjálsum íþróttum, knattspyrnu og sundi en þetta er í fyrsta skipti sem Ísland sendir keppanda í  badminton,Ómar Karvel Guðmundsson frá Suðureyri.  Aðildarfélög ÍF sem eiga keppendur á leikunum eru  ÍFR og Ösp í Reykjavík, Nes Reykjanesbæ, Fjörður Hafnarfirði, Suðri Selfossi, Eik Akureyri, Óðinn Akureyri, Völsungur Húsavík,Ívar Vestfjörðum.

58 þjóðir senda 2000 keppendur á leikana en keppt er í 10 greinum. Gert er ráð fyrir þúsund aðstandendum en aðstandendur koma m.a. frá Íslandi. 4000 sjálfboðaliðar aðstoða við leikana og gert er ráð fyrir að áhorfendur verði um 40.0000. 

Íslenski hópurinn býr í vinabæ 9. – 13. september en vinabær Íslands er Kortrijk.  Hlaup lögreglumanna verður gegnum Kortrijk  12. september og þeir munu hitta þar keppendur og fylgdarlið.   Lögreglumenn víða úr Evrópu munu hlaupa með logandi kyndil gegnum nokkra bæi í Belgíu og enda hlaupið á Opnunarhátíðinni sem fram fer í Brussel 13. september. Eldurinn var tendraður í Olympíu í Grikklandi og mun loga meðan leikarnir standa yfir.  Lögreglumenn hafa hlaupið með eld leikanna á alþjóða og Erópuleikum og í fyrsta skipti nú mun Ísland eiga fulltrúa í hópi lögreglumanna.  Það eru þeir Guðmundur Sigurðsson og Gunnar Shram lögreglumenn af Suðurnesjum. Nánar hér.

Auk keppni í 10 greinum fara fram spennandi viðburðir sem tengjast keppendum.

Healthy athlete programm er verkefni sem býður upp á ókeypis heilsufarsskoðun.  Læknar, fótaaðgerðafræðingar, sjúkraþjálfarar o.fl. starfa þar í sjálfboðavinnu og verkefnið hefur vakið mikla athygli.  Ef þörf er á fá keppendur t.d. ókeypis gleraugu.

Young Athlete programm er æfingaprógramm fyrir 2 – 7 ára börn með þroskahömlun sem einnig hefur vakið mikla athygli.  Special Olympics á Íslandi er að hefja samstarf við Special Olympics í Rúmeníu þar sem þessi þáttur verður í forgrunni.

Á þessum leikum eiga allir jafna möguleika á sigri,  allir keppa við sína jafningja.

Þá munu Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra, og Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ og einn af aðaleigendum Samherja sem er aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi, verða sérstakir gestir á Evrópuleikunum og fylgjast með gangi íslenska hópsins ytra.

Mynd/ Hluti íslenska hópsins sem heldur til Antwerpen í fyrramálið.

Til baka