Laugardagur 25. apríl 2015 12:23

Ólafur Þór sæmdur æðsta heiðursmerki ÍF


Sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra stendur nú yfir á Radisson Blu Hóteli Sögu í Reykjavík. Við þingsetningu var Ólafur Þór Jónsson gerður að heiðursfélaga Íþróttasambands fatlaðra og honum einnig veitt æðsta heiðursmerki sambandsins. Ólafur Þór hefur setið í stjórn Íþróttasambands fatlaðra allt frá stofnun árið 1979 en að þessu sinni mun Ólafur ekki gefa kost á sér til stjórnarsetu kjörtímabilið 2015-2017. Íþróttasamband fatlaðra þakkar Ólafi innilega fyrir óeigingjarnt og ómetanlegt starf hans í þágu íþrótta fatlaðra.

Fimm einstaklingar voru einnig sæmdir gullmerki Íþróttasambands fatlaðra fyrir störf þeirra í þágu íþrótta fatlaðra:

- Margrét Geirrún Kristjánsdóttir fráfarandi ritari stjórnar ÍF
- Lárus Rafn Blöndal forseti ÍSÍ
- Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ
- Ludvig Guðmundsson læknir og fyrrum formaður læknaráðs ÍF
- Ólafur Þórarinsson sundþjálfari hjá Íþróttafélaginu Firði
- Guðrún Árnadóttir formaður Íþróttafélagsins Snerpu á Siglufirði

Um æðsta heiðursmerki ÍF:

Æðsta heiðursmerki ÍF, er gullmerki á krossi, borið í borða í íslensku fánalitunum. Skal veita íslenskum ríkisborgara, sem unnið hefur langvarandi og góð störf í þágu ÍF, íþróttahreyfingarinnar í heild, einstakra íþróttahéraða, íþróttagreina eða með öðrum hætti, sem stjórn sambandsins ákveður, en störf viðkomandi verða að hafa haft afgerandi áhrif á framgang íþrótta fatlaðra.

Mynd/ Jón Björn - Ólafur Þór Jónsson ásamt eiginkonu sinni Margréti Friðþóru Sigurðardóttur.

Til baka