Föstudagur 5. júní 2015 10:19

Hópbílar styrkja ÍF


Íþróttasamband fatlaðra fékk afhentan veglegan styrk á dögunum frá Hópbílum en leiðir þessara tveggja öflugu aðila hafa legið saman um nokkurra ára skeið. Þannig sáu Hópbílar um allan akstur tengdan Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi 2009 en það mót var haldið í Laugardalslaug.
 
Viðeigandi var að Jón Margeir Sverrisson Ólympíu-, heims og Evrópumeistari í 200m skriðsundi þroskahamlaðra væri viðstaddur afhendinguna. Jón Margeir var á meðal keppenda 2009 og var þá að stíga sín fyrstu stóru skref á ferlinum en síðan þá hefur hann verið nánast óstöðvandi í lauginni og þegar sett tvö ný og glæsileg heimsmet á þessu ári.
 
Hópbílar hf. var stofnað árið 1995 og hefur það að markmiði að bjóða upp á nýjar og nýlegar hópbifreiðar með öllum helstu þægindum og öryggi. Í um 100 bíla flota eru 75% bílanna innan við 3ára gamlir, sem er einstakt á Íslandi og þótt víðar væri leitað. Með því  stuðla Hópbílar að minni mengun enda fyrirtækið eitt þeirra fyrstu til að innleiða alþjóðlega umhverfisvottun ISO14001. Hópbílar sinna margvíslegum verkefnum bæði með sérútbúnum bílum og venjulegum hópferðabílum.
 
Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til handa Hópbílum fyrir rausnarlegan styrk enda kemur hann sér einkar vel í þéttpökkuðu verkefnasumri fatlaðra íþróttamanna. Má þar helst nefna tvö heimsmeistaramót í frjálsum og sundi og að sjálfsögðu stærsta íþróttaverkefni ársins 2015 þegar Alþjóðaleikar Special Olympics fara fram í Los Angeles í Bandaríkjunum.

Frá vinstri: Jón Margeir Sverrisson afrekssundmaður hjá Fjölni, Þórður Árni Hjaltested varaformaður ÍF, Gísli Jens Friðjónsson forstjóri Hópbíla og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF.

Til baka