Þriðjudagur 23. júní 2015 10:38

Áhorfendur hjálpa Símanum að styrkja fatlað knattspyrnufólk


Síminn styrkir ÍF og Special Olympics um ákveðna upphæð á hvern áhorfanda

KSÍ hefur í mörg ár unnið með Íþróttasambandi fatlaðra og Special Olympics á Íslandi að því að efla þátttöku fatlaðra í knattspyrnu.  41 keppandi frá Íslandi fer á alþjóðaleika Special Olympics í Los Angeles 2015 sem fram fara 21. júlí til 3. ágúst.  Íslendingar keppa í 9 greinum - badminton, boccia, fimleikum, frjálsum íþróttum, golfi, keilu, knattspyrnu, lyftingum og sundi.  15 manna knattspyrnulið mætir til leiks og undirbúningur er í fullum gangi.  Á þessum leikum keppa allir við sína jafningja í mismunandi mismunandi styrkleikaflokkum. Verkefnið er gífurlega kostnaðarsamt og KSÍ og Síminn munu styðja verkefnið í tengslum við úrslitakeppni EM U17 kvenna, sem fram fer á Íslandi dagana 22. júní til 4. júlí.

Síminn er einn af samstarfsaðilum KSÍ og UEFA vegna EM U17 kvenna og mun Síminn styrkja ÍF og Special Olympics um ákveðna upphæð á hvern áhorfenda sem mætir á leiki í mótinu.  Fólk er því hvatt til þess að standa saman að því að vel verði mætt á leikina, styðja við liðin sem leika og um leið hjálpa Símanum að styrkja gott verkefni.

Allt um úrslitakeppni EM U17 kvenna


Til baka