Föstudagur 7. ágúst 2015 12:04

„Þetta er lífið!“


LA-hópurinn kominn heim
 
Hópurinn sem fór á alþjóðaleika Special Olympics kom heim að morgni 4. ágúst frá Seattle og fékk höfðinglegar móttökur á Keflavíkurflugvelli. Slökkviliðsmenn sprautuðu vatni yfir vélina, hljómsveit spilaði, allir fengu blóm  og boðið var upp á drykki og sælgæti þegar inn var komið. Það var ISAVIA sem stóð fyrir þessu en tveir keppendur eru starfsmenn ISAVIA og það hafði því verið fylgst vel með þar á bæ. Þessi ferð er búin að vera mikið ævintýri og það hefur verið gaman fyrir fararstjóra og þjálfara að fylgjast með keppendum sem blómstrað hafa í ferðinni, sumir að fá gullverðlaun í fyrsta sinn á ævinni, Einn keppandinn orðaði þetta svona; Hér tala allir við mig, hér er ég einn af hópnum og hlustað er á mig...,,Þetta er lífið"


Mælikvarði á sigurvegara er annar en á hefðbundnum íþróttamótum og allir eru jafn mikilvægir sem hlekkur í keðjunni. Ísland var að taka ný skref á þessum leikum, íslenskur lögreglumaður, Guðmundur Sigurðsson var valinn í alþjóðlegt lið sem hljóp kyndilhlaup um USA fyrir leikana og lið voru send til keppni í Unified sport sem er keppni fatlaðra og ófatlaðra. Það var í golfi og badminton en í golfliðinu var m.a. Heiða Guðnadóttir, Íslandsmeistari í holukeppni.

 Í heild hefur ferðin verið mjög ánægjuleg nema fyrsta nóttin þegar bíða þurfti í íþróttasal þar sem reglur um vinnutíma bílstjóra stöðvuðu rútukeyrslu þegar leið á nótt. Allir sýndu þá mikið þolgæði þó langt ferðalag væri að baki. Rúta frá Ontario kom loks að sækja hópinn og allir áttu mjög góða daga í Ontario og Rancho Cucamonga. Þessir 2 bæir höfðu skipulag sameiginlega dagskrá fyrir þrjú lönd Íslandi, Seychelles og Írak.
 
Þegar til LA var komið 24. júlí þurfti að skipta hópnum á tvo gististaði, USC og USC. Stuttar vegalengdir frá gististað að keppnisstað flestra greina gerðu allt skipulag auðveldara en áhersla hafði verið lögð á þennan þátt þegar kannað var hvað þjóðir töldu mikilvægt að laga frá fyrri leikum. Margir keppendur bættu sinn persónulega árangur og verðlaun streymdu í hús alla keppnisdagana. Fótboltaliðið spilaði úrslitaleik við Írland sem fór 2 -1 fyrir Írland eftir framlengdan leik og vítaspyrnukeppni. Boðhlaupssveitin í 4x100 m hlaupi og 4x100 m sundi átti snilldartilþrif þar sem íslenskir keppendur náðu að hlaupa og synda uppi mótherjana og vinna gullið. Mikil spenna ríkti í úrslitakeppni og þrátt fyrir að allir fái verðlaun og reynt sé að vekja athygli á að verðlaun séu ekki fréttaefni heldur hugmyndafræðin sem liggur að baki keppnisforminu, þá er auðvitað gullið það sem allir vilja fá!
 
Nánari upplýsingar um leikana má sjá á facebook síðu ÍF þar sem voru settar inn fréttir og myndir daglega. Aðstandendasíða var notuð til að auðvelda upplýsingaflæði til aðstandenda sem voru um 70 á leikunum. Tveir íslenskir handboltadómarar, Gísli Jóhannsson og Hafsteinn Ingibergsson dæmdu á leikunum og í fyrsta skipti fékk Ísland íslenskan aðstoðarmann, Önnu Birnu Guðlaugsdóttur þroskaþjálfa sem starfar í Klettaskóla.

Gestir voru viðstaddir fyrstu daga leikanna, Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF, Lárus Blöndal forseti ÍSÍ og Helga Steinunn Guðmundsdóttir varaforseti ÍSÍ og einn af eigendum Samherja ásamt Eygló Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra sem gekk með keppendum inn á völlinn á opnunarhátíðinni.

Kynning á keppendum og þátttöku Íslands er í Hvata 1. tbl. 2015 og gerð verð verður nánari samantekt í Hvata 2. tbl. 2015

Myndir eru á www.123.is/if

Á mynd 1 er Vilhelm Sigurjónsson, keppandi í keilu en hann var tilnefndur af íþróttafélaginu sínu, Ösp
Mynd  2  Frá Keflavíkurflugvelli við komuna til Islands
Mynd 3   Heiða Guðnadóttir, Íslandsmeistari í holukeppni 2015 og keppandi í unified golf á leikunum









Til baka