Miðvikudagur 19. ágúst 2015 16:17

Össur afhendir Húsdýragarðinum sérsmíðaða hnakka fyrir fötluð börn

Heilbrigðistæknifyrirtækið Össur hefur gefið Húsdýragarðinum tvo sérsmíðaða hnakka sem ætlaðir eru fötluðum börnum. Húsdýragarðurinn hefur lengi boðið börnum að fara á hestbak og láta teyma sig um garðinn en hingað til hafa fötluð börn ekki getað farið á bak þar sem sérhannaðan búnað vantaði. Óskaði garðurinn eftir því við Össur að útbúa sérstakan hnakk og brást fyrirtækið við með því að gefa garðinum tvo slíka.

Hallveig Guðmundsdóttur dýrahirðir hjá Húsdýragarðinum fékk afhentan annan hnakkinn í gær, þriðjudaginn 18. ágúst. Hinn hnakkurinn er enn í smíðum hjá söðlasmiðnum Brynjólfi Guðmundssyni og verður hann færður garðinum um leið og hann er tilbúinn. Þess má geta að á handverkshátíð sem haldin var á Hrafnagili í Eyjafirði fyrr í mánuðinum sýndi Brynjólfur hnakkinn sem hann smíðaði fyrir Húsdýragarðinn og hlaut hann sérstaka viðurkenningu fyrir hann. Valnefndin nefndi sérstaklega að ekki hefði verið slegið af fagurfræðilegum kröfum við gerð hans.


*Edda Heiðrún Geirsdóttir markaðsstjóri Össurar t.v. og Hallveig Guðmundsdóttir t.h.


*Eins og sjá má er hnakkurinn vel úr garði gerður.


Til baka