Föstudagur 21. ágúst 2015 15:24

Heimsmet Helga loks staðfest - 57,36 metrar!


Eftir umtalsverða bið og þónokkuð fjaðrafok er ljóst að Helgi Sveinsson spjótkastari úr Ármanni hefur fengið heimsmet sitt staðfest í spjótkasti F42! Í þrígang hafði Helgi þetta sumarið bætt gildandi heimsmet Kínverjans Fu Yanlong en tveimur metunum var í dag hafnað af Alþjóða Ólympíuhreyfingu fatlaðra (IPC) en það þriðja og jafnframt lengsta kastið var staðfest!
 
Ríkjandi heimsmet Helga er því 57,36 metrar frá Coca Cola móti FH utanhúss þann 26. júní síðastliðinn. Á JJ móti Ármanns fyrr í sumar og á alþjóðlegu móti Norðmanna sem fram fór á dögunum hafði IPC athugasemdir við nokkur atriði svo þau met fengust ekki staðfest. Þeim voru að skapi öll gögn og öll tæknileg atriði frá Coca Cola móti FH svo metið hefur nú verið fært inn í heimsmetalista IPC.
 
Með staðfestingunni á metinu er kast Helga upp á 57,36 metra sjötta lengsta kast fatlaðs manns í sögunni og eins og gefur að skilja lengsta kastið í hans fötlunarflokki sem er F42 (flokkur aflimaðra ofan hnés).
 
Næsta stóra verkefni Helga er heimsmeistaramóti fatlaðra í frjálsum sem fram er í Doha í Katar dagana 22.-31. október og þar mun Helgi keppa í sameiginlegum flokki F 42, 43 og 44. Eins og staðan er í dag hefur enginn í þessum flokkum kastað lengra en Helgi þetta árið.
 
Stjórn og starfsfólk Íþróttasambands fatlaðra óskar Helga innilega til hamingju með árangurinn!

Til baka