Mánudagur 5. október 2015 15:44
Norðurlandamót fatlaðra í sundi fór fram í Bergen í Noregi um síðastliðna helgi en keppt var í ADO sundhöllinni þar í borg. Norðurlandameistaratitlar féllu Íslendingum í skaut en Íslandsmetin létu á sér standa þessa helgina.
Það var reynsluboltinn Guðmundur Hákon Hermannsson, KR/ÍFR, sem fyrstur tók við gullverðlaunum í íslenska hópnum en hann náði fyrsta sæti í hópi eldri keppanda (senior) í 400 metra skriðsundi á tímanum 5.00,89 mín. Í kjölfarið kom svo gull hjá Thelmu Björg Björnsdóttur ,ÍFR, (junior) í sömu grein á tímanum 6.10,06 mín.
Norðmennirnir settu mótið upp þannig að keppendur fá stig fyrir það hversu nálægt þeir eru heimsmeti í þeirra fötlunarflokki. Þeir sem skora svo flest stig pr. grein fara með sigur af hólmi í annars vegar ungmenna (junior) og hins vegar fullorðins (senior) flokki óháð fötlunarflokkum. Sem sagt allir kepptu við alla.
Íslendingar unnu til fleiri verðlauna á mótinu en það voru þau Guðmundur Hákon og Thelma Björg sem urðu Norðurlandameistarar. Nánar má lesa um mótið í máli og myndum inni á
Facebook-síðu ÍF. Efri mynd/ Guðmundur Hákon Hermannsson fyrir miðju.
Neðri mynd/ Thelma Björg Björnsdóttir fyrir miðju.