Mánudagur 4. janúar 2016 15:08

ÍF og Samherji saman fram yfir 2018


Í desember síðastliðnum úthlutaði Samherji íþrótta- og samfélagsstyrkjum að andvirði 80 milljón króna en frá árinu 2008 er heildarúthlutun orðin meira en hálfur milljarður! Íþróttasamband fatlaðra naut góðs af þessari veglegu úthlutun samherja sem verður einn helsti og stærsti samstarfsaðili sambandsins fram yfir Vetrar-Paralympics í Peyongchang 2018.

Jafnan er íþrótta- og samfélagsstyrkjunum úthlutað til aðila í Eyjafirði en Íþróttasamband fatlaðra var eini aðilinn utan Eyjafjarðar sem hlaut styrk úr sjóðnum. Þeir Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF og Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF voru viðstaddir afhendinguna sem fram fór í nýbyggingu Útgerðarfélags Akureyrar.

Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sagði við N4 á Akureyri að hann væri sérstaklega stoltur af samstarfinu við Íþróttasamband fatlaðra, sagði hann orðrétt að sérstaklega væri það gleðin og dugnaðurinn sem kæmi fram í starfinu og því væri gaman að fá að vera þátttakandi í starfinu.

Sé tekið mið af rausnarlegum framlögum Útgerðarfélags Akureyrar til íþrótta- og samfélagsmála frá árinu 2008 er nokkuð ljóst að félagað er vafalítið einn stærsti bakhjarl íþróttastarfs í landinu!

Íþróttasamband fatlaðra þakkar kærlega fyrir sig og hlakkar til samstarfsins allt fram til og með árinu 2018.

Hér má svo sjá veglega umfjöllun N4 um málið

Mynd/ Akureyri.net- Þórir

Til baka