Föstudagur 22. janúar 2016 17:02

Nýtt samstarfsverkefni við NSCD Winter Park


Markhópur: Fjölskyldur fatlaðra barna


Þriðjudaginn 19. janúar hélt hópur af stað til Winter Park Colorado en þar voru 5 fjölskyldur fatlaðra barna ásamt fylgdarliði.

Hópurinn mun dvelja í Winter Park til 27. janúar og stunda skíðaæfingar ásamt því að taka þátt í fjölbreyttri útivistardagskrá.
Leiðbeinendur frá NSCD (National Sport Center for Disabled) sjá til þess að allir fá kennslu við hæfi en í hópnum eru börn með mismunandi fatlanir.  Í hópnum er Hilmar Snær Örvarsson sem skíðar á einu skíði og hefur æft og keppt með ófötluðum en aðrir eru í byrjendahópi.

Öll hafa þau sótt námskeið ÍF, VMÍ og NSCD sem haldin hafa verið í Hlíðarfjalli og flestir hófu þar sína skíðaiðkun.   
Auk aðstandenda fylgja hópnum íslenskir leiðbeinendur sem hafa aðstoðað skíðakennara NCSD við skíðanámskeiðin í Hlíðarfjalli auk þess að standa fyrir skíðanámskeiðum í Hlíðarfjalli og í Bláfjöllum. Fararstjóri er Elsa Skúladóttir fulltrúi vetraríþróttanefndar ÍF.  Tengiliður Íslands og skipuleggjandi dagskrár í Winter Park er Beth Fox sem hefur verið leiðbeinandi námskeiða á Íslandi. Auk skíðaæfinga verður ýmislegt fleira í boði en NSCD stendur fyrir fjölbreyttum útivistartilboðum allt árið.

Þetta er nýtt samstarfsverkefni NSCD og Íþróttasambands fatlaðra þar sem markhópur er fjölskyldur fatlaðra barna.

Íþróttasamband fatlaðra hóf samstarf við NCSD Winter Park, árið 2006 með það að markmiði að efla skíðaiðkun fatlaðra.
Leiðbeinendur NSCD hafa komið til Íslands og haldið námskeið auk þess sem íslenskir leiðbeinendur hafa sótt fræðslu til NSCD.
Erna Friðriksdóttir var fyrsti Íslendingurinn til að keppa í alpagreinum á Paralympics en hún keppti í Vancouver 2010 eftir að hafa stundað æfingar hjá NSCD.  Jóhann Þór Hólmgrímsson sem keppti í alpagreinum á Paralympics í Sochi 2014 og stefnir á Paralympics 2018 hefur stundað æfingar hjá NSCD.  Markmið samstarfs er því bæði þjálfun afreksfólks og uppbygging fræðslu og kennslu til byrjenda og leiðbeinenda.

Ef vel tekst til með þetta nýja samstarfsverkefni er stefnt að því að fleiri fjölskyldur fari til Winter Park á næstu árum.  ÍF hefur einnig verið í viðræðum við NSCD um samstarf vegna námskeiðs  NCSD fyrir ungar hreyfihamlaðar konur.  10 ára samstarf við NSCD hefur því sannarlega reynst þýðingarmikið, jafnt fyrir afreksfólkið sem byrjendur  og áhersla er lögð á að efla samstarfið enn frekar á komandi árum.


Mynd/ Íslenski hópurinn í Winter Park.

Til baka