Miðvikudagur 4. maí 2016 09:37

Góð stemming á Íslandsleikum Special Olympics

Góð stemming á Íslandsleikum Special Olympics

Íslandsleikar Special Olympics í knattspyrnu í samvinnu við KSÍ og íþróttafélagið Ösp voru á Þróttarvellinum, laugardaginn 30. apríl. Hlaupið var kyndilhlaup lögreglu fyrir leikana en Daði Þorkelsson, rannsóknarlögreglumaður stýrði því. Í fyrsta skipti voru í hópnum lögreglumenn á reiðhjólum og setti það skemmtilegan svip á kyndilhlaupið.   Snorri Magnússon, formaður Landssambands lögreglumanna setti og flutti ávarp um samstarf LETR og SO á Íslandi. Í ræðu hans kom fram að á þingi LL 2016 hefði verið sett á fót fyrsta kyndilhlaupsnefnd LL og að LL verður bakhjarl LETR á Íslandi.  Nes og Ösp sendu lið til keppni en sérstakir gestir á mótinu voru keppendur frá Special Olympics í Færeyjum.  Íslensku liðin voru mun sterkari þrátt fyrir að jafnað sé í lið eins og hægt er m.t.t. styrkleika en tveir styrkleikaflokkar voru í mótinu.  Keppni var opin fyrir alla fötlunarhópa og karlar og konur voru saman í liði.
Í lok móts afhenti Daði Þorkelsson, lögreglumaður verðlaun og endað var með grillveislu í boði íþróttafélagsins Aspar.

Samhliða Íslandsleikunum var vormót Aspar í sundi í Laugardalslaug en þar tóku einnig þátt keppendur frá Færeyjum.  Lögreglan heimsótti sundmótið, heilsaði upp á keppendur og afhendi verðlaun og vakti það mikla gleði, ekki síst lögreglumannanna sjálfra.

Íslandsleikar Special Olympics í fimleikum fóru fram 30. apríl í fimleikahúsi Bjarkar í Hafnarfirði en leikarnir fóru fram samhliða GK meistaramóti FSÍ. Þar kepptu iðkendur frá Gerplu og Reykjanesbæ.  Eva Hrund Gunnarsdóttir fimleikaþjálfari hjá Gerplu setti af stað fimleikaæfingar fyrir fatlaða í Reykjanesbæ í haust og þátttaka hefur verið mjög góð allt frá upphafi.  Vonast er til þess að fatlaðir iðkendur verði í auknum mæli hluti af iðkendum fimleikafélaga og/eða deilda um land allt.


Fleiri myndir á myndasíðu IF www.123.is/if

Til baka