Frístundaheimili Klettaskóla, Guluhlíð hlaut hvatningarverðlaun Skóla- og frístundasviðs 2015 fyrir verkefnið frístundahreysti. Í Guluhlíð eru börn með sérþarfir og verkefnið hefur verði þróað þannig að allir geta tekið þátt, jafnt þeir sem eru í hjólastólum sem aðrir. Umsjón með verkefninu hafa starfsmenn Guluhlíðar. Samstarfsaðilar eru Íþróttasamband fatlaðra og Skólahreysti. Leitað var eftir leyfi til að nota nafnið „hreysti“ og það var auðsótt þannig að verkefnið er kynnt sem Frístundahreysti Guluhlíðar. Miðvikudaginn 1. júní 2016 verður fyrsta kynningin á Frístundahreysti Guluhlíðar en hún fer fram í IFR húsinu Hátúni 14 Reykjavík. Þar munu börnin taka þátt í þrautabraut sem byggð verður upp á einfaldan hátt en markmið er að þetta verði árlegur viðburður þannig að börnin hafi eitthvað til að stefna að og verði dugleg að æfa. Forsvarsmenn Guluhlíðar vilja koma á framfæri þökkum til þeirra fjölmörgu sem komið hafa að verkefninu á einn eða annan hátt. Sjá nánar dagskrána.