Fimmtudagur 9. júní 2016 13:57

Frístundahreysti Guluhliðar 2016

Fjörutíu og átta börn úr 1.-4. bekk sem eru í sérhæfðu frístundastarfi í Guluhlíð tóku þátt í keppninni þar sem allir eru sigurvegarar. Páll Óskar hóf leik með söng og gleði og síðan fóru öll börnin þrautahringinn og sýndu bæði þor og þrek. Kristín Rós Hákonardóttir og Haukur Gunnarsson voru í hópi aðstoðarfólks í þrautabrautinni en börnin tókust á við hverja þraut af miklum krafti. Allir skemmtu sér vel, jafnt þátttakendur sem aðstoðarfólks g aðstandendur sem fylgdust með sínu barni. Viðburðurinn fór fram Íþróttahúsinu í Hátúni 14 og lögreglumenn sem unnið hafa með Special Olympics á Islandi að LETR verkefninu tóku á móti gestum með logandi kyndli við inngang ÍFR hússins.  Þeir aðstoðuðu einnig börnin við þrautabrautina.   
Frístundahreysti-keppnin fékk hvatningarverðlaun skóla- og frístundasviðs vorið 2015 en það miðar að því að skapa fötluðum börnum sambærilegan vettvang og í Skólahreysti. Verkefnið hefur síðan vaxið og dafnað og var keppnin í dag samstarfsverkefni Guluhlíðar, Íþróttasambands fatlaðra og Skólahreysti. Þá styrkti Kyndilhlaup lögreglunnar keppnina. Meginmarkmiðið er að allir fái að vera með og spreyta sig á hreystiþrautunum.
 
Stefnt er að því að frístundahreysti-keppnin verði árlegur viðburður á vegum Guluhlíðar fyrir öll börn með sérþarfir þannig að þau geti sett sér markmið, æft og stefnt að þátttöku í nokkrar vikur fyrir keppnina.

Til baka