Í tengslum við Íslandsmót ÍF sem haldin voru um þarsíðustu helgi endurnýjuðu Rúmfatalagerinn og Íþróttasamband fatlaðra með sér samstarfssamning sem kveður á um 12 milljón króna styrk Rúmfatalagersins sem verður varið til uppbyggingar og þjálfunar fatlaðs afreksfólks í íþróttum. Samningurinn er til fjögurra ára og nær fram yfir Ólympíumót fatlaðra sem haldið verður í London árið 2012 en síðustu ár hefur Rúmfatalagerinn verið einn stærsti og helsti samstarfs- og styrktaraðili ÍF.
Við mótssetningu Íslandsmótanna um þarsíðustu helgi undirrituðu Sveinn Áki Lúðvíksson formaður ÍF og Magnús Sigurðsson framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins samninginn og var Frú Hanna Birna Kristjánsdóttir borgarstjóri Reykjavíkurborgar vottur að undirrituninni.
Magnús Sigurðsson, framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins sagði við þetta tækifæri að allir sem fylgdust með íþróttum fatlaðra gerðu sér grein fyrir að samkeppnin þar yrði sífellt meiri og keppni þeirra á milli engu minni en á stórmótum ófatlaðra íþróttamanna. Vonandi gerði þess styrktar- og samstarfssamningur fötluðum íþróttamönnum kleift á að vera áfram meðal þeirra bestu. Þannig gæti Íþróttasamband fatlaðra einbeitt sér að þjálfun og uppbyggingu afreksfólks, án þess að þurfa að hafa verulegar áhyggjur að fjármálum og fjáröflun.
Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður ÍF sagði eftir undirritunina að fyrir
tilstuðlan þessa samnings við Rúmfatalagerinn teldi Íþróttasamband fatlaðra sig
geta að veitt afreksfólki sínu þann stuðning sem það þarf á að halda til þess að
geta byggt sig upp fyrir stórátök á íþróttasviðnu fram yfir Ólympíumótið í
London 2012. Þá gat Sveinn Áki þess jafnframt að Rúmfatalagerinn hafi um
áratugaskeið verið aðalstyrktaraðili sambandsins og að gott væri til þess að
vita að þetta öfluga fyrirtæki geti sent út jákvæð skilaboð í þjóðfélagið í því
efnahagsástandi sem nú ríkir.