Þriðjudagur 31. mars 2009 13:55

Viðbygging við íþróttahús ÍFR vígð að Hátúni 14 í Reykjavík

Viðbygging við íþróttahús Íþróttafélags fatlaðra í Reykjavík að Hátúni 14 í Reykjavík var formlega tekin í notkun laugardaginn 28. mars.

Boðað var til móttöku þar sem flutt voru ávörp og ný aðstaða kynnt. Júlíus Arnarson, formaður ÍFR bauð gesti velkomna og kynnti dagskrá.

Arnór Pétursson formaður bygginganefndar ÍFR rakti sögu hússins og sjá má ræðu hans
á heimasíðu ÍFR www.ifr.is

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir og Borgarstjóri Reykjavíkur, Hanna Birna Kristjánsdóttir ávörpuðu gesti. Júlíus Arnarson, formaður ÍF og Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands afhentu Sigurði Magnússyni, heiðurfélaga ÍF og frumkvöðli að íþróttastarfi fatlaðra á Íslandi sérstakan heiðursskjöld í tilefni þess að hann var valinn heiðursfélagi ÍFR. Hann er fyrsti heiðursfélagi ÍFR. Formaður ÍFR staðfesti að ÍFR hefði hlotið styrk frá ÖBÍ í tilefni dagsins og gjafabréf frá ÍF þar sem fram kom að ÍF mun styrkja kaup á lyftingabekk sem hentar fyrir hreyfihamlaða. Í lok dagskrár var fólki boðið að fá veitingar og að skoða nýju aðstöðuna þar sem margir prófuðu glæsileg lyftinga- og þjálfunartæki sem aðgengileg eru fyrir fólk í hjólastólum

Íþróttasamband Fatlaðra óskar ÍFR innilega til hamingju með þennan mikilvæga áfanga.

Myndasafn frá opnun viðbyggingarinnar: http://if.123.is/album/default.aspx?aid=141068

Mynd: Sundkonan Sonja Sigurðardóttir tekur á því í nýja lyftingasalnum hjá ÍFR.

Til baka