Mánudagur 27. apríl 2009 10:08

Níunda knattspyrnuvika Special Olympics

Áhersla á útbreiðslu knattspyrnu á meðal þroskaheftra

Dagana 25. apríl til 3. maí verður knattspyrnuvika Special Olympics haldin, sem hefur það að markmiði að styðja við og auka knattspyrnuiðkun þroskaheftra, og er þetta í 9. sinn sem þessi knattspyrnuvika er haldin. 

Knattspyrnuvikan nýtur öflugs stuðnings UEFA og er jafnan einn af hápunktum hvers árs hjá Special Olympics. Áætlað er að um 50.000 leikmenn í 45 löndum taki þátt í knattspyrnuvikunni, og á meðal þeirra eru leikmenn hér á landi.

Stefnt er að þátttöku þroskaheftra einstaklinga í knattspyrnu í félagi við leikmenn sem ekki eru þroskaheftir (Unified Football). Þannig munu þroskaheftir leikmenn og leikmenn sem ekki eru þroskaheftir leika saman í liði.  Markmiðið er að breiða út almennan áhuga þroskaheftra á íþróttinni og að vinna gegn fordómum. 

Settur verður upp stuttur sýningarleikur í hálfleik í úrslitaleik Lengjubikars karla, sem fram fer í Kórnum föstudaginn 1. maí.  Þar verður leikið í blönduðum liðum, þ.e. þroskaheftir saman í liði með leikmönnum sem ekki eru þroskaheftir. Þess má geta að KR og ÍA hófu í vetur að bjóða upp á æfingar þar sem þessir hópar leikmanna leika saman og hefur það verkefni byrjað mjög vel.

Nánar á vefsíðu Special Olympics
http://www.specialolympics-eu.org/

Til baka