Mánudagur 29. júní 2009 20:27

Dýragarður og framandi íþróttir í Eskilstuna

Viðburðaríkurdagur er nú að kveldi kominn og sem fyrr hér á Norræna barna- og unglingamótinu í Svíþjóð var einmuna veðurblíða. Vafalítið var það heimsókn í nálægan dýra- og skemmtigarð sem stóð upp úr en þar gaf að líta strúta, krókódíla, flóðhesta, ljón, flamengóa og margt margt fleira.

Að vanda hófst dagurinn á æfingu, María Ólafsdóttir sundþjálfari í ferðinni, stjórnaði æfingunni af fáheyrðri röggsemi á bakkanum og sundhópurinn tók hressilega á því. Á sama tíma var frjálsíþróttahópurinn ekki langt undan í öðrum hluta bæjarins við sínar æfingar en æfingar þeirra hefjast jafnan hér í gistiaðstöðunni. Þá taka krakkarnir sér góðan tíma í að stútfylla öll þau ílát sem kló á festir af vatni enda hitinn gríðarlegur.

Eftir æfingarnar var haldið í dýragarðinn góða og mátti ekki á milli sjá hvort væri vinsælla, ískrapið sem selt var í garðinum eða dýrin sjálf. Aparnir höfðu vissulega aðdráttarafl enda annáluð sjarmatröll en að heimsókn lokinni í dýragarðinn tók við skemmtilegt kvöld í gistiaðstöðunni þar sem Norðurlöndin öttu kappi í hinum ýmsu ,,íþróttum.“

Í kvöld voru keppnisgreinarnar þrjár talsins: Þríhjólaspretthlaup, söngvakeppni í Singstar og blindra borðtennis. Í stuttu máli fór Ísland á kostum, hafði sigur í tveimur greinum en tapaði einni. Sigur vannst gegn Dönum í þríhjólaspretthlaupi þar sem Hjörtur Már Ingvarsson, Breki Arnarsson og Almar Þór Þorsteinsson fóru hamförum.

Þá kom annar sigur gegn Finnum í Singstar en þar reið Ívar Egilsson á vaðið og drottnaði yfir slagarnaum Working 9 to 5 með Dolly Parton. Næst á svið var Bjarndís Sara sem söng Tainted Love og þriðja á svið var Kristín Jónsdóttir og söng hún lagði Walking on sunshine. Þegar í blindra borðtennisið var komið steig Brynjar Sigurþórsson fyrstur á stokk en mátti sætta sig við ósigur. Slíkt hið sama mátti Sigurjón Sigtryggsson en það var svo Elsa Sigvaldadóttir sem náði í einn sigur í blindraborðtennisinum en það reyndist ekki nóg og höfðu Norðmenn þar betur gegn Íslandi.

Fjörugur og fjölbreyttur dagur að baki hér í Svíþjóð en á morgun er fyrirhuguð heimsókn á mótorhjólakeppni ásamt æfingum og hugsanlega verður farið í bæjarferð.

Myndir: Á efri myndinni er Hafnfirðingurinn Brynjar Sigurþórsson að keppa í blindraborðtennis en á þeirri neðri eru þau Elsa Sigvaldadóttir,  Ívar Egilsson og Sigurjón Sigtryggsson að virða fyrir sér mannblendinn strút í Parken Zoo.

Til baka