Fimmtudagur 6. ágúst 2009 13:23

Fulltrúum IPC leist vel á aðstæður fyrir EM 2009

Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) sendi á dögunum tvo fulltrúa til Íslands til að taka út aðstæður fyrir Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi sem fram fer í Laugardal í október næstkomandi. Um var að ræða Agnesi Szilak íþróttastjóra IPC í sundi og Susan Prasad fulltrúa tækninefndar IPC.

Undirbúningsnefnd mótsins á Íslandi tók vel á móti erlendu gestunum sem heimsóttu keppnissvæðið í innilauginni í Laugardal ásamt því að kanna næsta nágrenni og gistiaðstöðu keppenda og aðstoðarfólks þeirra.

Fulltrúar IPC voru ánægðir með framvindu mála en skemmst er frá því að segja að undirbúningur fyrir mótið stendur nú sem hæst. Von er á rúmlega 400 keppendum og um 200 aðstoðarmönnum og því er í mörg horn að líta. Af þessum sökum leitar Íþróttasamband fatlaðra til allra þeirra sem hug hafa á því að koma nærri mótinu sem sjálfboðaliðar og aðstoðarfólk. Áhugasamir geta gefið sig fram við skrifstofu í síma 514 4080.

Mynd: Susan t.v. og Agnes t.h.

Til baka