Fimmtudagur 6. ágúst 2009 13:29

Hörður Barðdal fallinn frá

Góður félagi okkar og vinur Hörður Barðdal lést þriðjudaginn 4. ágúst sl. langt um aldur fram.  Hörður var einn af frumherjum íþrótta fatlaðra á Íslandi og tók virkan þátt í undirbúningsstarfinu bæði sem keppandi og afreksmaður. Þannig var Hörður árið 1977 sá fyrsti sem valinn var  íþróttamaður ársins úr röðum fatlaðra auk þess sem hann var á meðal þátttakenda er Ísland árið 1980 sendi í fyrsta sinn þátttakendur á Ólympíumót fatlaðra sem þá var haldið í  Arnheim í Hollandi. Hann var auk þess mjög virkur í félagsstarfinu, bæði hjá ÍF en ekki síður hjá sínu eigin félagi ÍFR. Hörður var í fyrstu stjórn Íþróttasambands fatlaðra og sat í stjórn þess til ársins 1986.  Á undanförnum árum var Hörður mjög iðinn við að kynna fólki golfíþróttina og var aðal hvatamaður að stofnun GSFÍ (Golfsamtaka fatlaðra á Íslandi) og aðal driffjöður samtakanna.

Hörður Barðdal var þó fyrst og síðast maður með stórt hjarta sem gaf mikið af sér. Reglulegum heimsóknum hans á skrifstofu ÍF, hans dillandi hláturs og góðu nærveru verður sárt saknað.

Þakkir og söknuður eru efst í huga þegar góður félagi, liðsmaður og vinur er horfinn á braut.

Íþróttasamband fatlaðra sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

Mynd: Hörður Barðdal með golfkylfu við hönd í golfæfingaðstöðunni Hraunkoti í Hafnarfirði.

Til baka