Fimmtudaginn 15. október næstkomandi hefst Evrópumeistaramót fatlaðra í sundi en mótið stendur til sunnudagsins 25. október. Keppnin sjálf fer fram dagana 18.-24. október en í mörg horn er að líta og undirbúningur stendur nú sem hæst.
Á meðfylgjandi mynd sést hvar þessar ungu konur voru í óðaönn við að undirbúa gjafpoka sem afhentir verða keppendum á mótinu en Össur hf. gaf pokana og í þeim munu keppendur finna ýmislegt um mótið ásamt öðru kynningarefni.
Von er á fyrstu keppendunum til landsins þriðjudaginn 13. október en flestir koma þó dagana 15. og 16. október. Þá verður mikið líf í Flugstöð Leifs Eiríkssonar en það eru Pálmar Sigurðsson og félagar hjá Hópbílum sem sjá um að ferja keppendur og aðstoðarfólk þeirra frá Leifsstöð. Keppnishótelin eru svo Park Inn Island, Grand Hótel og Hótel Cabin og urðu hótelin fyrir valinu sökum nálægðar þeirra við innilaugina í Laugardal, þar sem mótið fer fram.
Verkefnið er það stærsta sem Íþróttasamband fatlaðra hefur tekið sér fyrir hendur og mun mótið setja mikinn svip á Laugardal á meðan á því stendur. Þá er mótið stærsta alþjóðlega sundmótið sem fram hefur farið á Íslandi.
Mynd: Handtökin voru óteljandi á skrifstofu ÍF síðasta föstudag þegar gjafapokar fyrir tæplega 700 manns voru skipulagðir.