Nýlega endurnýjuðu VISA Ísland og Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) samning um samstarf og stuðning fyrirtækisins við starfsemi Íþróttasambands fatlaðra.
Með samningi þessum gerist VISA Ísland eitt af fjölmörgum fyrirtækjum sem styrkja sambandið vegna framkvæmdar Evrópumeistaramóts fatlaðra sem fram fer hér á landi um þessar mundir. Samningurinn er einnig langtímasamningur sem gerir VISA Ísland einn af aðalsamstarfs- og styrktaraðilum Íþróttasambands fatlaðra vegna undirbúnings og þátttöku fatlaðra íþróttamanna í Ólympíumóti fatlaðra sem haldið verður í London árið 2012.
Í tilefni af undirritun samningsins sagði Sveinn Áki Lúðvíksson formaður Íþróttasambands fatlaðra að mikil ánægja væri innan sambandsins með áframhaldandi stuðning VISA Íslands við íþróttastarf fatlaðra hér á landi. Velgengni fatlaðra íslenskra íþróttamanna væri ekki síst áratuga árangursríku samstarfi við fyrirtækið að þakka.
Höskuldur Ólafsson, forstjóri VISA Ísland, sem undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækins lýsti yfir mikilli ánægju með það að fyrirtækið væri einn af aðal samstarfs- og stuðningsaðilum Íþróttasambands fatlaðra. Það væri VISA Íslandi afar mikilvægt að taka virkan þátt í að styðja við íþróttalíf landsins og væri samningur þessi hluti af þátttöku fyrirtækins í starfi íþróttahreyfingarinnar á Íslandi. VISA Íslandi væri heiður sýndur með því að fá tækifæri til þess að taka þátt í því að efla íþróttir fatlaðra hér á landi
Samningur VISA Íslands og Íþróttasambands Fatlaðra gildir fram yfir Ólympíumót fatlaðra í London 2012.
Mynd/ Höskuldur Ólafsson VISA og Sveinn Áki Lúðvíksson ÍF handsala samninginn.