Á aðalfundi Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra – IPC, sem nú stendur yfir í Kuala Lumpur í Malasíu var samþykkt að heimila þroskaheftum íþróttamönnum þátttöku í Ólympíumótum fatlaðra að nýju.
Í kjölfar svindlmála, sem upp komu á Ólympíumótinu í Sidney árið 2000, setti IPC bann á þátttöku þeirra þar til viðunandi lausn fengist á flokkunarmálum þessa hóps. Undanfarin ár hefur hópur vísindamanna og sérfræðinga í þroskahömlun unnið að þessum málum og kynntu þeir niðurstöður sínar um takmörkun þroskahömlunar á íþróttalega getu á ráðstefnu sem haldinn var í tengslum við aðalfundinn.
Samþykkt aðalfundarins opnar dyr þroskaheftra íþróttamanna að Ólympíumótum framtíðarinnar að uppfylltum tveimur skilyrðum. Annars vegar að undangengnu mati um þroskahömlun viðkomandi og hins vegar mati sérfræðinga viðkomandi íþróttagreinar um hæfni viðkomandi íþróttamanns til þátttöku í greininni. Slíkt hæfnismat er byggt upp á prófum sem tengjast “íþróttalegri greind” viðkomandi í þeirri íþróttagrein sem hann stundar og unnt er að framkvæma á staðnum. Enn sem komið er eru próf þau er hér um ræðir ekki fullmótuð en stefnt er að því að þau verði tilbúinn og öllum opin um mitt ár 2010.
Ofangreind samþykkt heimilar þorskaheftum íþróttamönnum að keppa í fjórum íþróttagreinum á Ólympíumóti fatlaðra í London árið 2012 þ.e. sundi, frjálsum íþróttum, borðtennis og róðri en stefnt er að þátttöku þeirra í fleiri greinum í Ólympíumótum framtíðarinnar. Upplýsingar um lágmörk í þeim greinum sem þroskaheftir taka þátt í, veða líkt og annarra fötlunarflokka, birt í byrjun árs 2010.
Með samþykkt þessari lýkur áralangri baráttu Íslands og annarra landa um lausn þessa máls en það voru fulltrúar Íslands, sem á aðalfundi IPC árið 2007, lögðu fram tillögu sem leiddi til þessarar farsælu lausnar. Tengdri tillögu þessari tók Ísland að sér að standa að framkvæmd Evrópumeistaramóts fatlaðra í sundi þar sem þroskaheftir sundmenn voru, í fyrsta sinn síðan árið 2000, með í móti sem IPC stendur fyrir. Á mótinu voru m.a. þau próf og mælingar sem að ofan greinir notuð og sannreynd og útkoma þeirra og fleiri prófa notuð til að kynna niðurstöður á ráðstefnunni sem tengd var aðalfundinum.
Um leið og Íþróttasamband fatlaðra fagnar niðurstöðu þessari vill sambandið koma á framfæri þökkum til allra þeirra sem lagt hafa þessu máli lið sem og fulltrúum ríkisvaldsins fyrir þeirra aðstoð.