Erna Friðriksdóttir hefur nú lokið þátttöku sinni á Vetrarólympíumóti fatlaðra í Vancouver, Kanada. Erna keppti í kvöld í stórsvigi og mátti sætta sig við að verða úr leik í seinni ferðinni.
Í fyrri ferðinni kom Erna í mark á tímanum 2.00,62 mín. en í síðari ferðinni byrjaði hún vel en datt nokkuð neðarlega í brekkunni og rann smá spotta og fram hjá nokkrum hliðum og því sjálfkrafa úr leik.
Í beinni lýsingu frá seinni umferðinni á www.paralympicsport.tv höfðu þulirnir í útsendingu það á orði að Erna hefði vakið athygli vestra fyrir mikla baráttu og þarna færi hugaður keppandi.
Það var svo Bandaríkjakonan Alana Nichols sem hrifsaði til sín gullið en sameiginlegur tími hennar í báðum ferðum var 2.57,57 mín.