Þriðjudagur 20. apríl 2010 08:49

Góður Formannafundur ÍF

Formannafundur Íþróttasambands fatlaðra var haldinn laugardaginn 17. apríl sl. en í sjöundu grein laga ÍF segir: ,,Það ár sem sambandsþing er ekki haldið skal halda formannafund með formönnum aðildarfélaga ÍF.“ Á formannafundum er farið yfir þau mál sem efst eru á baugi og kynntar þær hugmyndir sem uppi eru um eflingu íþrótta fatlaðra auk þess sem aðildarfélögin greina frá því starfi sem þau inna af hendi.

Á formannafundinum nú voru m.a. kynntar hugmyndir sundnefndar ÍF varðandi ýmsar breytingar á sundmótum s.s. flokkaskiptingu þroskaheftra, skráningu Íslandsmeta, lágmörk á mót en einnig ýmislegt sem varaðar framkvæmd Íslandmóta ÍF. Voru fundarmenn sammála um að áfram yrði unnið að þessum hugmyndum og ef af yrði, þær kynntar aðildarfélögum ÍF. 

Einnig var fundarmönnum kynnt hugmynd um Íþrótta- og ævintýrabúðir fyrir hreyfihömluð börn og ungmenni á aldrinum 12 - 16 ára. Fögnuðu fundarmenn þessu framtaki sem lið í nýliðun í starfi ÍF og aðildarfélaganna. Þá voru þau verkefni sem framundan eru kynnt fyrir fundarmönnum s.s. þátttaka Íslands í Evrópuleikum Special Olympics sem og ýmis þróunarverkefni sem ÍF stendur að ýmist eitt og sér eða í samvinnu við önnur sérsambönd.

Ljósmynd/ Hér lengst til vinstri á myndinni má m.a. sjá Ólaf Þór Jónsson en hann hefur setið í stjórn ÍF frá stofnun sambandsins.

Til baka