Ólympíuleikarnir og Ólympíumótið færast nú nær en London kraumar nú við undirbúninginn fyrir stóru stundina 2012. Í gær voru lukkudýr leikanna kynnt til leiks, á Ólympíuleikunum verður Wenlock lukkudýr leikanna en á Ólympíumóti fatlaðra verður Mandeville lukkudýr leikanna og er það við hæfi þar sem síðasta Ólympíumót fatlaðra á Bretlandseyjum fór fram í Stoke Mandeville. Á þeim leikum unnu Íslendingar til tveggja bronsverðlauna í sundi en það gerðu þær Edda Bergmann og Anna Geirsdóttir, sundmenn úr röðum ÍFR.
Nöfn lukkudýranna eiga að endurspegla ríka sögu Bretlandseyja í tenglsum við Ólympíuleika og Ólympíumót og sagði Sebastian Coe formaður leikanna 2012 að lukkudýrin væru sköpuð fyrir börn til að sýna þeim glæsta sögu landsins á þessum stóru mótum.
Mandeville tekur því við hlutverkinu af litskrúðuga kálfinum Fu Niu Lele sem var lukkudýr Ólympíumóts fatlaðra í Peking árið 2008.
Ljósmynd/ Wenlock til vinstri og Mandeville til hægri.