Föstudagur 25. júní 2010 11:33

Arion banki áfram einn af bakhjörlum Íþróttasambands fatlaðra

Arion banki og Íþróttasamband fatlaðra undirrituðu samstarfssamning í dag, 23. júní, sem felur í sér að Arion banki verður einn af aðalbakhjörlum sambandsins. Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka og Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra skrifuðu undir styrktarsamninginn í dag sem gildir fram yfir Ólympíumótið árið 2012. Allt frá stofnun Íþróttasambands fatlaðra 1979 hefur bankinn verið einn stærsti styrktaraðili íþrótta fatlaðra hér á landi.

Í tilefni af undirritun samningsins sagði Sveinn Áki Lúðvíksson, formaður Íþróttasambands fatlaðra að mikil ánægja væri með stuðning Arion banka: ,,Við Íslendingar höfum eignast fjölda ólympíu- og heimsmeistara í íþróttum fatlaðra og stuðningurinn nú hvetur okkur til áframhaldandi afreka.“

Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri Arion banka sagði við undirritun samningsins að það væri heiður að fá tækifæri til að taka þátt í að efla íþróttir fatlaðra hér á landi: ,,Við teljum afar mikilvægt að halda áfram þessu góða samstarfi með Íþróttasambandi fatlaðra og óskum þeim velfarnaðar í því starfi sem framundan er.“

Ljósmynd/ Höskuldur t.v. og Sveinn Áki t.h.

Til baka