Miðvikudagur 14. júlí 2010 16:16

Jóhanna sigurvegari á fyrsta minningarmóti Harðar

Jóhanna Ásgeirsdóttir hafði sigur úr bítum á fyrsta minningarmóti Harðar Barðdal í pútti sem fram fór á púttvellinum við Hraunkot í Hafnarfirði í gær. Jóhanna hafði sigur í flokki fatlaðra og fékk fyrir vikið farandbikar en héðan í frá verður minningarmót Harðar Barðdal haldið árlega í júlímánuði. Hörður Barðdal var ötull forvígismaður golfíþróttar fatlaðra á Íslandi og gengdi formennsku hjá Golfsamtökum fatlaðra til dauðadags. Þá var Hörður á meðal fyrstu afreksíþróttamanna landsins í röðum fatlaðra og fyrrum stjórnarmaður hjá Íþróttasambandi fatlaðra en hann lést í fyrra eftir baráttu við krabbamein.

Alls voru 43 keppendur skráðir til leiks og þar af kepptu 15 í flokki fatlaðra sem flest hver hafa stundað æfingar á vegum GSFÍ undir handleiðslu Jóhanns Kristjáns Hjaltasonar í sumar. (Æfingarnar fara fram í Hraunkoti alla þriðjudaga í sumar frá kl. 17-19 fyrir bæði hreyfi- og þroskahamlaða).

Lokastaða:

Flokkur fatlaðra:
Jóhanna Ásgeirsdóttir 37
Hildur Jónsdóttir 38
Sigurður V. Valsson 39

Flokkur ófatlaðra:
Valgerður – 36
Kristmann Magnússon – 36 (Valgerður með betra skor á seinni 9)
Halldór K. – 37

Mótið lukkaðist í alla staði vel enda brakandi blíða sem brosti við pútturum á mótinu og þá voru dætur Harðar heitins þær Fanney og Sesselja mættar til þess að afhenda verðlaun á mótinu. Systurnar kvöddu sér hljóðs og tilkynntu mótsgestum að fyrir lægi að stofna minningarsjóð Harðar Barðdals og yrði honum komið í gagnið sem allra fyrst.

Nú þegar er búið að festa annað minningarpúttmót Harðar Barðdals en það fer fram í Hraunkoti á næsta ári miðvikudaginn 13. júlí og því slétt ár sem fatlaðir jafnt og ófatlaðir púttarar fá til þess að slípa sig fyrir næsta mót.

Meðalskor þessa fyrsta móts var 46,8 högg.

Mynd1: Sigurvegarar á mótinu ásamt systrunum Fanney Barðdal (lengst til vinstri) og Sesselju Barðdal (lengst til hægri)
Mynd 2: Sigurvegarar í flokki fatlaðra, frá vinstri Hildur Jónsdóttir, Jóhanna Ásgeirsdóttir og Sigurður V. Valsson.
Mynd 3: Sigurvegarar í flokki ófatlaðra, frá vinstri Kristmann, Valgerður og Halldór K.

Ljósmyndir/ Jón Björn Ólafsson - ÍF

Til baka