Mánudagur 9. ágúst 2010 23:11

Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi

Heimsmeistaramót fatlaðra í sundi fer fram í Eindhoven í Holandi daga 15. – 21. ágúst n.k.  Alls munu 655 sundmenn frá 54 löndum taka þátt í mótinu og keppa um þau verðlaun sem veitt eru hinum ýmsu greinum og fötlunarflokkum en mótið er stærsta sundmót frá upphafi.  Á mótinu keppa allir bestu sundmenn heimsins sem meðal annars tóku þátt í Ólympíumóti fatlaðra í Peking 2008 og Evrópumeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fór hér á landi í októbermánuði 2009.

Níu íslenskir sundmenn verða meðal þátttakenda en af þeim kom fimm úr röðum hreyfihamlaðra og blindra og fjögur úr flokki þroskaheftra.  Í sundi fatlaðra er keppt í flokkum S1 – S10 fyrir hreyfihamlaða þar sem S1 táknar mestu fötlun og S10 minnstu fötlun. Flokkar S11 – S13 eru flokkar blindra og sjónskertra og flokkur S14 er flokkur þroskaheftra.

 

Íslenska hópinn skipa eftirtaldir sundmenn:

Aníta Óska Hrafnsdóttir, Firði

Kolbrún Alda Stefánsdóttir, Firði

Sonja Sigurðardóttir, ÍFR

Anna Kristín Jensdóttir, ÍFR

Hjörtur Már Ingvarsson, ÍFR

Eyþór Þrastarson, ÍFR/KR

Jón Margeir Sverrisson, Ösp/Sunddeild Fjölnis

Ragnar Magnússon, Firði

Pálmi Guðlaugsson, Firði/Sunddeild Fjölnis

 

Þjálfarar og fararstjórar verða þau Kristín Guðmundsdóttir, Helena Ingimundardóttir, Hjördís Hjartardóttir og Rúnar Arnarsson

Líkt og á Evrópumeistaramótinu 2009 teflir Ísland fram ungum og efnilegum hópi sundfólks sem miklar vonir eru bundnar við í framtíðinni.  Flestir ofangreindra einstaklinga þreyttu frumraun sína á stórmóti með þátttöku sinni á Evrópumeistaramótinu og til gamans má geta að reynslumestu einstaklingarnir þar voru Eyþór Þrastarson og Sonja Sigurðardóttir - bæði innan við tvítugt!   Það verður því spennandi að fylgjast með þessu unga og efnilega sundfólki í keppni meðal þeirra bestu.

Unnt verður að fylgjast með keppninni alla daga í vefsjónvarpi www.paralympicsport.TV þar sem aðdáendur íþrótta fatlaðra geta séð í beinni útsendingu sund á heimsmælikvarða jafn óðum og hlutirnir gerast.

Til baka