Fimmtudagur 9. september 2010 11:41

Evrópuleikar Special Olympics

Varsjá, Póllandi 18. – 23. september 2010

Íþróttasamband fatlaðra sendir fimmtán keppendur á leikana en þeir taka þátt í borðtennis, frjálsum íþróttum, keilu og lyftingum.

Borðtennis; Sigurður A Sigurðsson, Soffía Rúna Jensdóttir og Guðmundur Hafsteinsson, ÍFR og  Sunna Jónsdóttir, Akri. Þjálfari er Elvar Thorarensen.  

Frjálsar íþróttir; Ágúst Þór Weber,Gný Stefán Thorarensen, Akri, Inga Hanna Jóhannesdóttir og Birkir Eiðsson, Ösp. Þjálfari er Ásta Katrín Helgadóttir.

Lyftingar; Bóas Hreindal Ösp og  Sveinbjörn Sveinbjörnsson og Guðjón Friðgeirsson, ÍFR.  Þjálfari er Arnar Már Jónsson. 

Keila; Magnús Ragnarsson, Sigurður A Kristjánsson, Óðinn Rögnvaldsson, Sæunn Jóhannesdóttir og  Sunnefa Gerhardsdóttir, Ösp og Laufey María Vilhelmsdóttir, Þjóti. Þjálfarar eru Guðlaug Sigurðardóttir og Haukur Þorvaldsson.
 
Fararstjórar eru Anna Karólína Vilhjálmsdóttir og Jóhann Arnarson en þau munu einnig taka þátt í ráðstefnu í tengslum við leikana. Þar verður kynnt samstarf Special Olympics samtakanna við háskóla í Póllandi og háskóla á Írlandi auk kynninga á niðurstöðum rannsókna sem tengjast starfi samtakanna.
 
Keppnisgreinar á leikunum eru   frjálsar íþróttir, borðtennis, knattspyrna kvenna, körfubolti, tennis, lyftingar, keila, hjólaskautar, badminton og  MATP sem miðast við einstaklinga sem eru með mikla hreyfihömlun. Keppendur eru 1.600 frá 58 löndum en reiknað er með að 2000 sjálfboðaliðar aðstoði við leikanna.  

Dagana 15. – 18. september verður vinabæjardagskrá fyrir löndin em markmið með því er að efla  tengsl þátttökuþjóða við heimafólk í því landi sem Evrópuleikar og /eða alþjóðaleikar eru haldnir hverju sinni. Íslenski hópurinn mun taka þátt í slíkri dagskrá í  Wola þar sem hópurinn mun verða fyrstu dagana.    

Special Olympics samtökin hafa byggt upp samstarf við fagfólk í heilbrigðisþjónustu  þar sem augnlæknar, heyrnar og talmeinafræðingar, sjúkraþjálfarar og fótaaðgerðarfræðingar  bjóða ókeypis þjónustu á leikum samtakanna.  Alþjóðalionshreyfingin styrkir verkefnið “Opening Eyes” þar sem augnlæknar skoða sjón keppenda og  margir hafa fengið ókeypis gleraugu í kjölfar slíkrar skoðunar.

Opnunarhátíð fer fram 18. september í Legia Stadium í Varsjá. Lögregluþjónar hlaupa með kyndil leikanna um Pólland dagana 10. – 18. september og bera eldinn inn á leikvanginn. 

Viðburðir fara fram á eftirfarandi stöðum;
Academic of Physical Education (AWF)    Frjálsar íþróttir
Hulakula Bowling Center     Keila
Warsaw Agricultural University (SGGW)    Lyftingar  og borðtennis
Legia Stadium       Opnunarhátíð     18. september
Castle Square ( The Warsaw Old Town)     Lokahátíð      23. september

Special Olympics er alþjóðlegt nafn sem ekki má yfirfæra í ólympíumót enda gjörólíkt.
Einstaklingar með þroskahömlun keppa á leikum Special Olympics og allir geta verið með.
Á  Ólympíuleikum  fatlaðra eða Paralympics keppir aðeins afreksfólk úr röðum fatlaðra.

Special Olympics samtökin voru stofnuð í Bandaríkjunum, árið 1968, af Kennedy fjölskyldunni.  . Framþróun á síðustu 10 árum hefur verið gífurlega hröð og ekki hefur aðeins verið lögð áhersla á íþróttastarf, heldur hafa samtökin einnig fengið til liðs við sig færustu sérfræðinga víða um heim, til samstarfs á sviði mennta og heilbrigðismála.  Markmið er fyrst og fremst að vekja athygli á því að þroskaheft og seinfært fólk á að eiga kost á því að njóta sömu lífsgæða og annað fólk, jafnt hvað varðar almenna þjónustu sem tómstundastarf. Á íþróttasviðinu eru allir jafnir og keppa við sína jafningja, þeir sterkari sem veikari. Allir eiga sama möguleika á að hljóta verðlaun.  

www.specialolympics.org

http://www.specialolympicsee.eu/ee_2010_Special_Olympics_European_Games.aspx        www.warsaw2010.eu

Ljósmynd/ Guðmundur Hafsteinsson og Sigurður Andri Sigurðsson eru á meðal þeirra sem verða í Póllandi í næstu viku.

Til baka