Föstudagur 17. september 2010 15:34

Hópurinn búinn að koma sér vel fyrir í Póllandi

Íslenski hópurinn á Evrópuleikum Special Olympics í Póllandi var í gærdag í skoðunarferð í Varsjá. Móttaka var í ráðhúsinu í Wola, þar sem hópurinn býr fyrir leikana. Gengið var um gamla bæinn, keyrt um borgina og farið heimsókn í  safn í Póllandi og eitt af elstu söfnum í Evrópu þar sem sýndur er búnaður slökkviliðsmanna auk slökkviliðsbíla. 

Hópurinn fékk að prófa búninga og hjálma auk þess sem útkall var sett á og fyrstu viðbrögð sýnd. Deginum lauk með siglingu á ánni Wislu. Þar voru einnig aðrar þjóðir sem búa í Wola dagana fyrir leikana eins og Ísland en n.k. vinabæjarprógramm er í gangi 15. – 18. september.  Auk Íslands voru Slóvenia, Georgia og Svartfjallaland í siglingunni en þar var boðið upp á grillmat og diskótónlist. Á dag  er gefinn tími til æfinga í hverri grein og í lok dagsins er löndunum sem búa í Wola boðið í kvöldverð og skemmtun.

Á morgun verður farið á háskólasvæðið þar sem gist verður meðan leikarnir standa yfir. Allur hópurinn er mjög ánægður með móttökurnar í Wola og greinilegt er að móttaka landanna hefur verið vel undirbúin. Aðalmarkmið með vinabæjarheimsókn fyrir leika Special Olympics er að fólk fái tækifæri til að kynnast betur innviðum samfélagsins í því landi  sem heldur leikana hverju sinni. Fólk fær tækifæri til að kynnast betur landi og þjóð og þannig skapast forsendur til að vinna gegn fordómum og auka virðingu fyrir siðum og venjum í hverju landi.

Ljósmynd/ Íslenskir lyftingakappar í Póllandi, bíða spenntir eftir að láta til sín taka við lóðin.

 

Til baka