Miðvikudagur 22. september 2010 11:09

Íslensku keppendurnir klyfjaðir verðlaunapeningum í Póllandi

Allt hefur gengið vel hjá íslenska hópnum á Evrópuleikum Special Olympics í Póllandi og allir ljúka keppni í dag. Sveinbjörn Sveinbjörnsson vakti athygli í lyftingum þar sem hann sigraði allar sínar greinar og hlaut verðlaun fyrir mesta samalagða þyngd.  Íslensku keppendurnir í frjálsum íþróttum, keilu og borðtennis eru klyfjaðir verðlaunapeningum og verðlaunaborðum og mikil stemming ríkir í hópnum. 

Í lyftingum er keppt í þyngdarflokkum auk aldursflokka og engin undankeppni er þar til að jafna í flokka eftir getu. Í öðrum greinum fer fram undankeppni þar sem keppendum er raðað í jafna styrkleikaflokka auk aldursflokk. Verðlaunahafar geta því verið þeir sem eru lakastir í hverri grein jafnt og þeir allra bestu. Fyrir fjórða til áttunda sæti eru veittir verðlaunaborðar Bæjarstjóri og fulltrúar bæjarstjórnar Wola mættu á leikana til að fylgjast með og hvetja íslenska keppendur og það var mjög ánægjulegt.
 
Timothy Kennedy Shriver, forsvarsmaður Special Olympics International sem hélt ræðu á opnunarhátíðinni hefur farið á milli keppnisstaða og ávallt vakið mikla athygli. Margir töluðu um það eftir ræðu hans hve honum svipaði til frænda sinna, Forseta Bandaríkjanna, ekki síst í ræðustól þar sem hann lætur mjög að sér kveða. Fólk hópast að honum og óskar eftir myndatöku en Kennedy nafnið virðist ennþá vera jafn áhrifaríkt og á árum áður.
 
Í tengslum við leikana er boðið upp á skoðun á heilsufari keppenda og íslenski hópurinn hefur verið duglegur að nýta sér það. Nike íþróttaskór eru í boði fyrir þá sem  klára 4 mælingar en þar sem er í boði eru sjón- og heyrnarmælingar, mælt þol, styrkur og liðleiki, fætur eru skoðaðir og ráðgjöf veitt varðandi umhirðu, tannheilsa skoðuð o.fl.  Ókeypis gleraugu eru afhent þeim sem þurfa gleraugu eða endurnýjun gleraugna og vísað er til skoðunar í heimalandi ef eitthvað kemur fram sem þarf frekari skoðunar við.

Lokahátíðin verður haldin annað kvöld og hópurinn kemur heim 24. september

Ljósmyndir/ Sveinbjörn Sveinbjörnsson lyftingamaður tekur á því á efri myndinni en á þeirri neðri er Ágúst Þór Weaber í fimmta gír.

Til baka