Fimmtudagur 23. september 2010 13:21

Það fæðist enginn atvinnumaður!

Í tilefni af Heilsuviku hjá Reykjanesbæ 27. september - 3. október býður Heilsu- og uppeldisskóli Keilis uppá tvo fyrirlestra, annars vegar með Loga Geirssyni, handboltakappa og hins vegar með Klemenz Sæmundssyni, næringarfræðing og maraþonhlaupara. Fyrirlestrarnir verða haldnir hjá Keili á Ásbrú og allir eru velkomnir án endurgjalds.

Það fæðist enginn atvinnumaður
Logi Geirsson, mánudagskvöldið 27. september kl. 20.30-22.00

Loga Geirsson þarf vart að kynna en hann er einn ástsælasti íþróttamaður þjóðarinnar og er nýkominn heim til Íslands, tímabundið, eftir atvinnumennsku í handbolta í Þýskalandi en þar notaði hann tímann einnig til að mennta sig í ÍAK einkaþjálfun hjá Keili.

Logi fæddist ekki atvinnumaður frekar en nokkur annar og þurfti að leggja hart að sér til að ná þeim árangri sem hann hefur náð. Logi mun tala sérstaklega til ungra íþróttamanna, foreldra þeirra og þjálfara um markmiðasetningu, þjálfun, hugarfarsþáttinn og fleira sem huga þarf að ætli menn að ná langt í sinni íþrótt. Allir velkomnir - Engin forskráning!

Næring á 21. öldinni
Klemenz Sæmundsson, fimmtudagskvöldið 30. september kl. 20.00-21.30

Klemenz Sæmundsson hafa líklegast flestir Suðurnesjamenn séð á hlaupum um bæinn en hann er mikill maraþonhlaupari. Hann er einnig næringarfræðingur og matvælafræðingur og kennir næringarfræði við Heilsuskóla Keilis.

Klemenz mun fjalla um næringu á 21. öldinni og gefa Suðurnesjamönnum góð ráð um holla næringu og hreyfingu. Allir velkomnir - Engin forskráning!

www.keilir.net

Til baka