Þriðjudagur 9. nóvember 2010 12:44

Aðalfundur Golfsamtaka fatlaðra á Íslandi

Haldinn að Engjavegi 6 þann 28 október 2010-11-08

Fundargerð
Hörður Þorsteinsson setti fundinn og bauð fundarmenn velkomna. Hann fór yfir aðdraganda þess að fundurinn var boðaður og einnig lauslega yfir starfsemi sumarsins. Hann bað svo Ólaf Ragnarsson að koma upp og gera frekari grein fyrir starfseminni á liðnu sumri. Ólafur sagði frá góðri þátttöku á æfingum og mótum og einnig að til stæði að halda úti æfingum í vetur. Jóhann Hjaltason sagði frá því hvernig hann hefði hagað æfingum í sumar og hvernig hann hefði hugsað sér starfið í vetur, planið væri að æfa tækniatriðin vel og reyna svo að spila meira næsta sumar.
Þessu næst var gengið til kosninga í stjórn samtakana en samkvæmt lögum þeirra á ÍF að skipa einn stjórnarmann og GSÍ annan. Iðkendur kjósa svo þriðja stjórnarmanninn og einn til vara sem einnig situr stjórnarfundi.  Ólafur Ragnarsson og Jóhann K. Hjaltason voru tilnefndir í stjórn fyrir hönd ÍF og GSÍ og það kom uppástunga um Atla Jóhann Guðbjörnsson fyrir hönd iðkenda. Áki Friðriksson gaf svo kost á sér sem varamaður. Skoðunarmenn samtakana verða þau Hörður Þorsteinsson og Anna Karólína Vilhjálmsdóttir. Hörður sagði síðan frá því að samtökin ættu einhverja peninga á bók en það væri engin með prókúru á þær og það yrði næsta verk komandi stjórnar að leysa úr því að koma peningamálunum á hreint. Undir liðnum önnur mál kom fram sú ósk að fá að spila meira golf næsta sumar og hugsanlega að samtökin beittu sér fyrir lægri vallargjöldum eða aðild að klúbb/klúbbum fyrir sína félagsmenn.
Annað var ekki gert og var fundi slitið og boðið upp á kaffiveitingar að honum loknum.

Til baka